Breytingar verða gerðar á reglugerð um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu sem gengur í garð 1. september. Í fyrsta skipti verður sett hámark á leyfilegan heildarafla fyrir blálöngu, litla karfa og gulllax. Þetta kemur fram á vef Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegsráðherra.
Þar kemur fram að í mislangan tíma hefur veiðum á nokkrum fisktegundum verið stýrt með því að ákvarða hámarksheildarafla og leyfisbinda veiðarnar. Verndarsjónarmið ráða þar för og komið hefur verið í veg fyrir ofveiði. Þessar tegundir hefði með réttu átt að hlutdeilda setja um leið og samfelld veiðireynsla lá fyrir, skrifar Sigurður Ingi.
„Breytingar verða gerðar á reglugerð um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu sem gengur í garð 1. september. Breytingin, sem birt verður í dag, felur í sér þá ákvörðun mína að setja, í fyrsta skipti, leyfilegan heildarafla fyrir blálöngu, litla karfa og gulllax. Í þessu felst að í framhaldinu verður aflahlutdeildum, í þessum tegundum, úthlutað til einstakra skipa. Leyfilegur heildarafli tegundanna ákvarðast af ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Framangreind rök eiga við um einn stofn til viðbótar; makríl. Ég mun bráðlega setja af stað vinnu þar sem farið verður yfir hvernig réttast verði staðið að því að setja hann í kvóta,“ segir á vef Sigurðar Inga.