Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt rúmlega þrítugan karlmann í 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa ítrekað brotið gegn umferðarlögum. Maðurinn, sem er fæddur árið 1981, var jafnframt sviptur ökurétti ævilangt.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðaði málið gegn manninum með ákæru sem var gefin út 11. júní sl. Um er að ræða þrjú umferðarlagabrot. Maðurinn gerðist m.a. sekur um að aka bifreið undir áhrifum áfengis og að aka bifreið eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum.
Maðurinn játaði skýlaust brot sín. Samkvæmt sakavottorði á maðurinn að baki nokkurn sakaferil þar sem hann hefur ítrekað brotið gegn umferðarlögum. Brotaferill mannsins hófst með dómi Héraðsdóms Suðurlands árið 2001 þar sem hann var dæmdur fyrir brot á umferðarlögum og var hann sviptur ökuréttindum í tvö ár og gert að greiða sekt í ríkissjóð.
Síðan þá hefur hann níu sinnum verið dæmdur fyrir brot á umferðarlögum og hefur hann ítrekað verið sviptur ökurétti ævilangt, líkt og segir í dómi héraðsdóms.
Einnig hefur manninum verið gert að greiða sekt samkvæmt viðurlagaákvörðun sem einnig var fyrir brot á umferðarlögum auk skjalafals.
Manninum var gert að greiða 42.934 krónur í sakarkostnað auk málsvarnarþóknunar skipaðs verjanda síns, 62.750 krónur.