Klám kemur til umræðu á Alþingi

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson Árni Sæberg

„Málið er enn til umræðu og ég mun fylgja því eftir í þinginu þegar það kemur saman í haust,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri Grænna og fyrrverandi innanríkisráðherra, um að loka fyrir aðgengi að klámefni á netinu. Einnig segir Ögmundur að um mannréttindamál sé að ræða.

Ögmundur ræddi hugmyndir sínar um að takast á við dreifingu kláms á netinu við vefritið Motherboard. Hann er meðal annars spurður út í orð sín um að ekki megi rugla hugmyndum sínum saman við skerðingu á tjáningarfrelsi. „Ef sölumenn ofbeldisefnis eru að þröngva sér inn í heim barna með efni sem aldrei yrði samþykkt á skólalóð eða næsta götuhorni, af hverju ætti það að líðast á netinu?“

Þá er hann spurður út í skilgreiningu á klámefni og þá skoðun ýmissa að klám sé list. „Erótík getur verið list og nekt og kynlíf má setja fram á listrænan og fallegan hátt. En ef ofbeldi er orðið að listformi í hugum einhverra myndi ég tengja það við úrkynjun ef ekki lögbrot en alls ekki list. Og við eigum ekki að bera virðingu fyrir ofbeldi.“

Að endingu er Ögmundi bent á að klámefni geti ekki allt talið ofbeldisefni, enda unnið með samþykki allra aðila. „Ég er ekki á móti nekt né kynlífi. Ég er á móti ofbeldi og ég er á móti þessum iðnaði sem lætur ekki börn okkar í friði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert