Krefjast lögbanns á framkvæmdir

Hart hefur verið deilt um lagningu Álftanesvegar um Gálgahraun.
Hart hefur verið deilt um lagningu Álftanesvegar um Gálgahraun. Morgunblaðið/Eggert

Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir sendu í dag sýslumanninum í Reykjavík beiðni um lögbann vegna framkvæmda við nýjan Álftanesveg sem hófust nýverið í Gálgahrauni. Samtökin halda því fram að framkvæmdin sé ólögleg.

Krafist er þess að lögbann verði lagt við framkvæmdum við lagningu Álftanesvegar um Gálgahraun og bent á að fyrr í sumar hafi verið þingfest mál á hendur vegamálastjóra til staðfestingar á ólögmæti framkvæmdarinnar. „Aldrei hefur reynt á lögmæti framkvæmdarinnar fyrir dómi, en tveir úrskurðir sem gengið hafa á stjórnsýslustigi, í málum milli allt annarra aðila, hafa eingöngu snúist um formhlið málsins en ekki efni,“ segir í lögbannsbeiðninni.

Þá lýsa samtökin furðu sinni á umfjöllun Vegagerðarinnar um málið á vefsvæði hennar og mbl.is greindi frá nýverið. „Samkvæmt henni virðist Vegagerðin líta svo á að hún eigi sjálfdæmi í ágreiningsmálum sem að henni snúa.“

Samtökin segja að framkvæmdin sé allt önnur en sú framkvæmd sem metin var í umhverfismat á sínum tíma. „Þegar framkvæmdir hefjast ekki innan 10 ára frá því að mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir ber að taka ákvörðun um endurskoðun þess að hluta til eða í heild skv. 12. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Engin slík ákvörðun hefur hins vegar verið tekin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert