Nú þegar ágústmánuður er senn á enda huga eflaust margir að sveppatínslu en matsveppi er að finna víða úti í náttúrunni. Að sögn Ásu Margrétar Ásgrímsdóttur, hjúkrunarfræðings og áhugakonu um matsveppi og sveppatínslu, geta allir farið og tínt sveppi, sé áhuginn, réttu verkfærin og dálítil þekking á matsveppum fyrir hendi.
Á laugardaginn mun Silke Werth, nýdoktor við Líf- og umhverfisvísindastofnun HÍ, leiða sveppaáhugamenn og matgæðinga um Heiðmörkina í leit að sveppum. Hann mun fræða þátttakendur um hvaða sveppi má borða, hverjir þeirra eru eitraðir og hvernig greina megi muninn á þeim ásamt ýmsu fleiru.
Ferðin er farin í samvinnu við Háskóla Íslands og Ferðafélag barnanna. Lagt verður af stað frá Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, klukkan 10.