Mikill meirihluti landsmanna er hlynntur því að reisa vindmyllur á Íslandi samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Landsvirkjun. Um 81% landsmanna er fylgjandi þeim en aðeins 7% eru andvíg byggingu vindmyllna.
Niðurstaða könnunarinnar var kynnt á fundi hjá Landsvirkjun í dag þar sem fjallað var um árangur rannsóknarvindmyllna sem fyrirtækið reisti á Hafinu svonefnda ofan við Búrfell í vetur.
Þar kom jafnframt fram að mikill áhugi hafi verið á vindmyllunum þegar tekið var á móti gestum við þær sex laugardaga í sumar. Þar gafst gestum kostur á því að skoða inn í turninn og horfa upp í stöðvarhús vindmyllnanna. Rúmlega 1.800 áhugasamir gestir lögðu leið sína að vindmyllunum samkvæmt talningu fyrirtækisins.