Verðlaun ESB fyrir nútímabyggingarlist sem í ár féllu í skaut Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík, hafa styrkt samkeppnisstöðu íslenskra arkitektastofa á erlendum mörkuðum.
Mörg verkefni sem nú berast inn á borð koma utan frá, flest frá Noregi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í morgunblaðinu í dag. Til dæmis er arkitektastofan Batteríið nú að hanna tæplega 400 herbergja ráðstefnuhótel í Stafangri og nýlega gerði stofan einnig samning um hönnun 5.000 fermetra hjúkrunarheimilis í Ósló.
Gert er ráð fyrir að tæplega helmingur veltu hjá arkitektastofunni Arkís komi frá erlendum verkefnum. Þar hefur nýlega verið gengið frá samningum um hönnun 4.000 fermetra hjúkrunarheimilis og leikskóla í Noregi.