Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, ætlar að ávarpa samkomuna á trúarhátíðinni Hátíð vonar í september. Hátíðin hefur verið umdeild vegna aðalfyrirlesara hennar, Franklin Graham, sem er yfirlýstur andstæðingur réttindabaráttu samkynhneigðra.
Agnes var í viðtali hjá morgunútvarpi Rásar tvö í morgun. Hún sagði forsvarsmenn hátíðarinnar hafa komið til hennar fyrir löngu með þessa bón.
„Aðkoma mín að hátíðinni er sú að ég hef ákveðið að standa við loforðið sem ég gaf fyrir mörgum mánuðum og ávarpa samkomuna. Ég ætla að leggja áherslu á það sem sameinar okkur,“ sagði Agnes í morgunútvarpinu í morgun.
Agnes lagði áherslu á það í viðtalinu að Þjóðkirkjan sem stofnun stæði ekki að þessari hátíð, þótt einstaklingar innan hennar, bæði leikir og lærðir, tækju þátt. Aðspurð hvort þjóðkirkjan ætti eitthvað sameiginlegt með manni sem lítur á samkynhneigð sem synd sagði biskup m.a. að það væri mikilsvert að kristnir söfnuðir af öllu landinu gætu unnið saman þótt skoðanir væru skiptar.
Þjóðkirkjan hefur tekið afstöðu með réttindabaráttu samkynhneigðra og mun að sögn Agnesar halda áfram að leggja áherslu á að standa með hinsegin fólki.
„Ég álít svo að við fæðumst svona, við fæðumst með öllu sem við höfum og eigum og get ekki ímyndað mér að nokkur manneskja sé að gera sér það upp að vera öðru vísi en fjöldinn. Þess vegna hlýtur það að vera þannig að eitthvað fólk fæðist samkynhneigt, alveg eins og fjöldinn fæðist gagnkynhneigður.“
Graham sagðist ekki hommafælinn
Þjóðkirkjan standi við fyrri ályktanir