„Ákvörðunin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti“

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. mbl.is/Bryjar Gauti

Bæjarráð Vestmannaeyja ræddi málefni Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja á aukafundi í dag og þau áform um að leggja af grunnþjónstu sem sé fólgin í rekstri skurðstofu frá og með 1. október nk. Bæjaryfirvöld segja að ítrekað hafi verið gerð atlaga að þeirri mikilvægu og lífsnauðsynlegu þjónustu sem sé veitt á stofnuninni.

Í tilkynningu sem Vestmannaeyjabær sendi frá sér segir að „illu heilli þarf stöðugt að vera að minna embættismenn og pólitíska fulltrúa ríkisvaldsins á staðreyndir þessara mála.  Fyrir kosningar virðist skilningurinn alger. Þeir sem leita eftir atkæðum geta þá ekki til þess hugsað að skerða þjónustu samfélagsins á þann máta að konur geti ekki fætt börn í næststærsta byggðarkjarna á landinu utan stórhöfuðborgarsvæðisins.  Skilningurinn á öryggi íbúa, eðli atvinnulífsins, hættunni sem fylgir sjómennsku og fleira er á sama hátt mikil fyrir kosningar.  Að loknum kosningum þarf hinsvegar að verja þessa sjálfsögðu þjónustu með kjafti og klóm.“

Ákvörðun tekin án samráðs

Vestmannaeyjabær segir, að enn og aftur sé minnt á að vegna landfræðilegrar legu Vestmannaeyja sé nauðsynlegt að íbúar og gestir hafi aðgang að skurðstofu í samfélaginu.

„Ekki á þurfa að taka það fram að Vestmannaeyjar eru eyja.  Veður hér eru oft válynd og nú síðast í síðustu viku –um há sumar- var ekki siglt milli lands og Eyja í á annan sólarhring, þoka lá yfir öllu svo ófært var með flugi. Í Vestmannaeyjum gerist það reglulega að  samfélagið einangrast vegna veðurs og aðstæðna sem ekki verður ráðið við.  Bæjarráð gerir þá eðlilegu kröfu að heilbrigðisyfirvöld taki tillit til sérstöðu Vestmannaeyja og tryggi öryggi bæjarbúa að þessu leyti.

Bæjarráð gagnrýnir sérstaklega að jafn afdrifarík ákvörðun og þessi skuli tekin án samráðs við bæjaryfirvöld. Ákvörðunin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, ekkert hafði verið rætt við bæjaryfirvöld um málið. Af þessum sökum krefst bæjarráð þess að heilbrigðisráðherra fundi með bæjarstjórn hið fyrsta vegna þessa og jafnframt er þess krafist að ekkert verði aðhafst til undirbúnings fyrirhugaðri lokun fyrr en að loknum slíkum fundi,“ segir í tilkynningunni.

Gera allt til að verjast þessari atlögu

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að heilbrigðisþjónusta í Vestmannaeyjum sé um margt ólíkt því sem gengur og gerist.

„Við erum hér með næst stærsta þéttabýliskjarna utan stórhöfuðborgarsvæðisins á lítilli Eyju sem oft einangrast fyrirvara lítið.  Ég hef, eins og svo margir Eyjamenn, kynnst mikilvægi skurðstofu.  Ekki einungis hef ég lagst þar undir hnífinn heldur fæddist annað barna minna á skurðstofunni.  Ég veit því sem er að fátt myndi draga meira úr öryggi íbúa og gengisfella samfélagið en lokun á skurðstofunni,“ segir Elliði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér.

„Við Eyjamenn munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að verjast þessari atlögu á öryggi bæjarbúa og gesta.  Fyrsta skrefið er að funda með Kristjáni Þór heilbrigðisráðherra sem sjálfur er af landsbyggðinni og þekkir því þessi mál.  Að mínu mati ætti svo næsta skref að vera alsherjar úttekt á heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum þar sem allt væri undir, bæði sú þjónusta sem bæjarfélagið veitir sem og sú þjónusta sem ríkið veitir. Mín trú er sú að út úr slíkri úttekt kæmu leiðir til hagræðingar sem kunna að verða til þess að hægt sé að koma í veg fyrir þá skerðingu sem nú hefur enn á ný verið boðuð,“ segir Elliði ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert