Ólafur Elíasson, meðlimur InDefence-hópsins, fagnar góðum árangri aðstandenda undirskriftarsöfnunarinnar lending.is. Hann segir hópinn hafa mikil áhrif á lýðræðisþróunina í landinu og vonast til þeir nái að safna yfir 83.000 undirskriftum, líkt og InDefence hópurinn náði að safna er hann mótmælti hryðjuverkalögum sem Bretar beittu Íslendinga árið 2009.
InDefence hópurinn barðist sem kunnugt er gegn Icesave-samningunum. Ólafur segist óska aðstandendum undirskriftasöfnunar til stuðnings þess að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni innilega til hamingju með þann góða árangur sem þeir hafi náð, en alls hafa safnast yfir 58.000 undirskriftir á lending.is.
„Ég þekki það af eigin raun að það er mikið átak og þarf mikið til til þess að ná svona miklum árangri. Mér sýnist þessi hópur vera að gera bókstaflega allt rétt; þeir eru með gríðarlega vandaða og málefnanlega umfjöllun um málið, þar sem þeir flytja sterk rök fyrir málstað sínum. Þeir eru vel skipulagðir og eru að hafa, að mínu mati, mikil áhrif á lýðræðisþróunina hérna á Íslandi. Þetta er eitthvað sem okkur í InDefence hópnum stendur nærri hjarta,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.
Hann bendir á að þeirra fyrsta undirskriftarsöfnun hafi verið til að mótmæla hryðjuverkalögum sem Bretar beittu Íslendinga árið 2009. Þá söfnuðust 83.204 undirskriftir um að Íslendingar væru ekki hryðjuverkamenn.
„Nú vonum við innilega að lending.is nái að klífa yfir það,“ segir Ólafur.