Óvenju lítið í Hvaleyrarvatni

Svo virðist sem vatnsborð Hvaleyrarvatns í Hafnarfirði sé töluvert lægra í ár en undanfarin ár. Þetta vekur athygli, sérstaklega í ljósi þess að heldur meiri úrkoma hefur fallið á suðvesturhorni landsins í sumar en oft áður undanfarin sumur, og því telja þeir sem þekkja til að meira ætti að vera í vatninu.

Dagur Jónsson, vatnsveitustjóri hjá Vatnsveitu Hafnarfjarðar, hefur fylgst með vatninu í hátt í 25 ár og segir hann að hæð vatnsborðsins sé óvenjulega lág miðað við veðurfarið í sumar en þó er ekki vitað með vissu hver ástæðan er. Dagur segir að Hvaleyrarvatn sé ekki það eina sem vakið hafi athygli á þessu svæði í sumar heldur sé einnig minna vatn í Kaldá við Kaldárbotna en í raun ætti að vera. Aftur á móti er nóg af vatni í vatnsbólum höfuðborgarbúa.

Að sögn Dags er ekki hægt að slá því föstu af hverju staða vatnsborðs Hvaleyrarvatns sé svo lág í lok þessa sumars en nokkrar ástæður gætu þó verið fyrir því vatnið skili sér svo seint og illa. Mögulega hafi vatnið safnast í holrými í berglögunum þar sem vatnsstaðan hefur verið orðin lág og eigi því eftir að skila sér í ár og vötn á þessu svæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert