„Þetta snýst um réttinn til þess að veiða“

„Við vitum að sjómenn innan Evrópusambandsins veiða miklu meira en sem nemur útgefnum kvóta. Þeir mega kasta fiski útbyrðis sem er ekki tekinn af kvótanum þannig að þetta snýst ekki um sjálfbærni eins og sambandið heldur fram. Þetta snýst um réttinn til þess að veiða, hver eigi rétt á kvótanum.“

Þetta segir færeyski skipstjórinn Bogi Jacobsen í samtali við fréttamann breska ríkisútvarpsins BBC um refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Færeyingum vegna síldveiða þeirra sem tóku gildi á miðnætti í gær.

Einnig er rætt við Kaj Leo Johannesen, lögmann Færeyja, sem bendir á að síldin sé í miklu meira mæli í færeyskri lögsögu en áður og taki þar æti frá öðrum tegundum. Færeyingar eigi því rétt á aukinni hlutdeild í síldarkvótanum. „Sá sem skaðar síldarstofninn er ekki sá sem veiðir 5% heldur sá sem veiðir 95%. En ég vona að það takist að ná samkomulagi um lausn,“ segir Johannesen.

Þá er rætt við Villy Søvndal, utanríkisráðherra Danmerkur, sem staddur var í Færeyjum til þess að lýsa yfir stuðningi við Færeyinga. Fjallað er um einkennilega stöðu Dana sem séu í ríkjabandalagi með Færeyjum en þurfi eftir sem áður að framfylgja refsiaðgerðum Evrópusambandsins gegn Færeyingum vegna veru sinnar í sambandinu.

Færeyingar hafa kært refsiaðgerðirnar til Sameinuðu þjóðanna á grundvelli alþjóðahafréttindasáttmálans og er Søvndal spurður að því hvernig hann telji að niðurstaðan í þeim efnum ætti að vera: „Ég er ekki dómarinn, ég eftirlæt dómurunum að taka þá ákvörðun.“ Bent á það að svarið lýsi ekki einlægum stuðning við Færeyinga svarar hann: „Nei, ég er bara að segja að ég sé ekki dómarinn, það er ekki Danmörk sem mun ákveða niðurstöðu þess máls.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert