Nokkrir bílar hafa lent í vandræðum vegna þæfingsfærðar á Hrafnseyrarheiði í kvöld og voru björgunarsveitarmenn kallaðir út. Leiðsögumaður með 30 Þjóðverja í sumarfríi segist hafa búið fólkið undir að von væri á hvassviðri, en enginn hafi átt von á svo miklum snjó.
„Þeim finnst þetta meiriháttar ævintýri, en að sjálfsögðu eins og þú getur ímyndað þér þegar fólk fer í sumarferð þá er það ekkert mjög hresst með að fá svona veður,“ segir Ingó Herbertsson leiðsögumaður.
Ingó ferjaði hóp þýskumælandi ferðamanna yfir Hrafnseyrarheiði um sjöleytið í kvöld. Rútan komst með naumindum upp brekkurnar og afréð bílstjórinn að setja keðjur á dekkin þegar komið var á háheiðina til að forðast að rútan myndi renna á leiðinni niður aftur.
Ingó segir að snjólagið hafi verið í það minnst 5 cm á heiðinni og fólksbílar sem voru á ferðinni, þar á meðal bílaleigubílar með ferðamönnum hafi lent í vandræðum.
Lögreglan á Ísafirði staðfestir að nokkrar hjálparbeiðnir hafi borist frá ökumönnum í vandræðum á Hrafnseyrarheiðinni. Björgunarsveitin á Þingeyri hélt á heiðina til aðstoðar ferðalöngum á vanbúnum bílum.
Ingó hefur verið leiðsögumaður í 35 ár. Hann segist hafa lent í svipuðum aðstæðum í september í fyrra, þegar hann var á leið til Egilsstaða með hópi ferðamanna en var snúið við á Möðrudalsöræfum vegna ófærðar. Hann segir þó óvenjulegt að lenda í slíkum aðstæðum svo snemma í september og hvað þá í ágúst.
Auk þæfingsfærðar á Hrafnseyrarheiði í kvöld varaði Vegagerðin við krapasnjó á Mikladal, Hálfdán og Dynjandisheiði.