Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar lögðu á fundi íþrótta-og tómstundaráðs fyrir helgi tillögu um að skipa starfshóp til að skoða möguleg áhrif á auknu samstarf og eða sameiningu íþróttafélaga í Reykjavík. Málið var rætt á fundinum en afgreiðslu þess frestað.
Starfshópnum yrði gert að skoða fjárhagsleg, félagsleg og íþróttaleg áhrif samvinnu eða sameiningar íþróttafélaga í Reykjavík. Einnig skoða hver áhrifin gætu orðið á uppbyggingu og rekstur íþróttamannvirkja í hverfum borgarinnar.
Í hópnum yrðu þrír fulltrúar úr íþrótta-og tómstundaráði, einn fulltrúi ÍBR auk framkvæmdastjóra ÍTR og ÍBR. Hópurinn hefði þá heimild til að kalla til liðs við sig ráðgjafa utan borgarinnar.
Samkvæmt tillögunni ætti hópurinn að skila tillögum að næstu skrefum eigi síðar en 1. febrúar 2014.