Félagsvísindasvið Háskóla Íslands leggur ekki mat á þær deilur sem uppi hafa verið vegna ráðningar Jóns Baldvins Hannibalssonar sem gestafyrirlesara að öðru leyti en þær að hætt hefur verið við að fá hann til að annast kennslu við deildina.
„Vegna umfjöllunar fjölmiðla vill Félagsvísindasvið Háskóla Íslands koma eftirfarandi á framfæri:
Háskóli Íslands leggur ríka áherslu á að rækja hlutverk sitt sem menntastofnun eins vel og auðið er. Við skipulag kennslu er eftir atvikum leitað til gestafyrirlesara utan skólans.
Deilur innan skólans um fyrirkomulag kennslu eða þá einstaklinga sem fengnir eru til að sinna tilfallandi kennslu geta torveldað faglegt kennslustarf og skaðað hagsmuni nemenda. Sú ákvörðun að Jón Baldvin Hannibalsson muni ekki halda gestafyrirlestra við háskólann næsta vetur er fyrst og fremst tekin til að gera skólanum kleift að sinna hlutverki sínu og tryggja nauðsynlegan frið um starfsemina. Skólinn leggur að öðru leyti ekki mat á þær deilur sem uppi hafa verið af þessu tilefni, segir í yfirlýsingu frá félagsvísindasviði HÍ.