Vetur í ágúst

Víða er nú leiðindaveður. Líkt og sést á meðfylgjandi myndum, sem vefmyndavélar Vegagerðarinnar tóku nú í kvöld, hefur snjóað á fjallvegum á Vestfjörðum. Það skal þó áréttað að ágúst hefur enn ekki runnið sitt skeið, og enn tveir mánuðir í fyrsta vetrardag.

Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands að mesti vindur á láglendi sl. klukkustund hafi mælst á Stórhöfða, 25,9 metrar á sekúndu.  

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir að nokkrar tilkynningar hafi borist um fok á lausum munum og björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu séu komnar til starfa.

„Við ítrekum þau tilmæli að fólk hugi að nágrenni sínu og gangi frá lausum munum nú þegar til að ekki hljótist af þeim tjón eða slys.

Veðrið hefur ekki náð hámarki og því er enn í fullu gildi viðvörun okkar um að fólk hugi að færð áður en haldið er af stað og langbest að njóta kvöldsins þar sem þið eruð og ekki taka neina áhættu,“ segir í tilkynningu frá almannavörnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert