ESB virðir ákvörðun Íslands

AFP

„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur komið því skýrt á framfæri við umsóknarríkin að þau hafi óskað eftir inngöngu í sambandið og að sú ósk birtist í umsókn þeirra. Það er hluti af skuldbindingu þeirra að uppfylla nauðsynleg skilyrði og gera það sem þarf að gera í umsóknarferlinu.“

Þetta sagði Peter Stano, talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í vikunni um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í sambandið. Hann sagði að skuldbinding Evrópusambandsins væri á móti að veita umsóknarríki inngöngu í það ef það óskaði þess, ef það uppfyllti skilyrðin fyrir því og ef ríki sambandsins samþykktu það einróma að því gefnu að viðræðum þar um yrði lokið.

„Þannig að það er ekki okkar að tjá okkur um það hvað okkur finnst um afstöðu viðkomandi ríkis. Vilji það ganga í Evrópusambandið þá sendir það umsókn og heldur áfram viðræðuferlinu. Ef það vill ekki ganga í sambandið þá annað hvort hefur ríkið ekki viðræður eða stöðvar þær,“ sagði hann.

Staðan væri þannig í dag að enn væri í gildi samþykki ríkja Evrópusambandsins fyrir því að hefja viðræður við Ísland. Hins vegar biði sambandið eftir niðurstöðu úttektar íslenskra stjórnvalda á ferlinu og stöðunni innan þess „enda munum við virða ákvarðanir Íslands hvort sem þær verða teknar af íslensku ríkisstjórninni, íslenska þinginu eða íslenskum kjósendum“.

Hins vegar væri það staðföst sannfæring Evrópusambandsins að besti vettvangurinn fyrir samskipti Íslands og sambandsins væri umsóknarferlið og að innganga Íslands yrði báðum aðilum til góðs. „En auðvitað virðum við hverja þá ákvörðun sem Íslendingar taka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert