Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti á fundi sínum í vikunni bann við akstri hópbifreiða á Þórsgötu. Tillagan er háð samþykkt lögreglustjóra.
„Í fyrsta lagi hefur rútum verið lagt fyrir utan hús númer 26 sem skyggir á glugga í götunni. Í öðru lagi er Þórsgatan vistgata og það er ekki eðlilegt að rútur fari þar um á öllum tímum sólarhringsins,“ segir Ólafur Bjarnason, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar. Hann bætir við að Þórsgatan hafi verið ein af fyrstu vistgötunum í Reykjavík.
Á horni Þórsgötu og Njarðargötu er rekið gistiheimili og segir Ólafur að straum hópbifreiða megi rekja til þess.