Illviðrið sem skall á landinu í gær virðist óðum vera að ganga niður og mun draga úr vindi víðast hvar á landinu síðdegis. Flestar leiðir á landinu eru greiðfærar, en þó eru hálkublettir á nokkrum fjallvegum vestan- og norðan til.
Samkvæmt Veðurstofu Íslands eru horfur á allhvassri eða hvassri vestanátt N- og A-lands og við S-ströndina framan af degi, en annars hægari vindi. Síðdegis dregur úr vindi. Rigning verður fyrir norðan og slydda eða snjókoma á heiðum. Síðdegis fer að lægja, fyrst V-til. Hiti verður 3 til 15 stig, hlýjats á SA-landi.
Á Vesturlendi eru nú hálkublettir í Bröttubrekku. Hálkublettir eru á Hálfdán og Dynjandisheiði á Vestfjörðum og snjóþekja á Hrafnseyrarheiði. Á Norðurlandi eru hálkublettir á Þverárfjalli, Vatnsskarði, Öxnadalsheiði og Hófaskarði. Vegagerðin varar við vatnavöxtum á öllum hálendisleiðum í dag og á morgun.
Á morgun, sunnudag, eru horfur á suðaustanátt, 8-13 m/s og rigningu, fyrst SV-til en þurru NA-lands fram á kvöld. Hiti verður á bilinu 7 til 13 stig.