Glímir við samskipta- og væntingavanda

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í Héraðsskólanum …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í Héraðsskólanum á Laugarvatni fyrir eitt hundrað dögum. mbl.is/Eggert

Eitt meginverkefni okkar á næsta kjörtímabili verður að leggja fram raunhæfar tillögur um hvernig leysa megi, eða létta mjög, vanda þeirra sem eru í fjötrum skulda og vonleysis. Það verður ekki létt verk, en það skal verða okkar meginmál. Það er loforð. Framsóknarflokkurinn getur alls ekki unað því að stórir hópar í samfélaginu búi við þessi ömurlegu skilyrði. Þetta er aðalmálefni komandi kosninga og mikilvægasta úrlausnarefni næsta kjörtímabils. Ríkisstjórnin hefur brugðist þessu fólki. Það munum við ekki gera.“

Þannig komst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að orði í ræðu sinni á flokksþingi framsóknarmanna fyrir kosningarnar síðastliðið vor. Í krafti þessa boðskapar, öðru fremur, er hann nú orðinn forsætisráðherra og hefur verið síðustu hundrað dagana. En hvernig miðar honum og ríkisstjórninni almennt?

Spennti bogann hátt

„Frá sjónarhóli mínum sem stjórnmálasálfræðingur þá glímir þessi ríkisstjórn við a.m.k. tvenns konar vanda. Vanda sem hún raunar deilir með fyrri ríkisstjórn,“ segir Hulda Þórisdóttir, lektor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. „Í fyrsta lagi er það samskiptavandinn, en henni hefur gengið illa að eiga í samræðu við kjósendur og skapa þá tilfinningu að ákvarðanir séu teknar í samvinnu við þá. Í öðru lagi og kannski ekki ótengt samskiptaleysinu glímir þessi ríkisstjórn, rétt eins og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, við ákveðinn væntingavanda. Hún spennti bogann hátt og hefur ekki getað staðið við loforðin enn sem komið er. Þá er ég fyrst og fremst að tala um Framsóknarflokkinn, hann tók mun dýpra í árinni í kosningabaráttunni en Sjálfstæðisflokkurinn.“

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir vissan viðvaningsbrag hafa einkennt fyrstu hundrað daga ríkisstjórnarinnar. Það þurfi ekki endilega að koma á óvart enda hafi enginn ráðherranna gegnt slíku embætti áður. „Það er talsverður munur á því að vera óbreyttur þingmaður að þenja sig og ráðherra þar sem hvert orð er brotið til mergjar og jafnvel út úr því snúið.“

Þegar talað er um hundrað daga valdatíð segir Hulda að hafa beri í huga að ríkisstjórnin hafi, líkt og algengast er hér á landi, tekið við að vori. „Það þýðir að sumarið er framundan og þá snúast hjól samfélagsins hægar en á öðrum árstímum. Í því ljósi þarf ekki að koma á óvart að hlutirnir gangi hægar fyrir sig en ella.“

Það breytir ekki því, að áliti Huldu, að ríkisstjórnin þurfi að fara að láta verkin tala. „Það bíða allir. Bæði þeir sem vilja lánaleiðréttingar og líka hinir sem telja þær hugmyndir afleitar og vilja að þær séu slegnar út af borðinu.“

Gunnar Helgi segir að fyrst muni reyna á stjórnina í vetur. Hann grunar að þolinmæði almennings sé frekar lítil og því verði stjórnin að bretta upp ermar. Fylgi við hana fari þegar dvínandi í skoðanakönnunum og það sé ákveðið viðvörunarmerki.

Gömul stjórnkænska

Gunnar Helgi segir engin áberandi mistök hafa átt sér stað þessa fyrstu hundrað daga. Auðvitað hafi einstaka ráðherrar misstigið sig en ekki meira en gengur og gerist.

Lækkun veiðigjalds og boðun afnáms auðlegðarskatts eru mál sem sett hafa svip á fyrstu hundrað daga ríkisstjórnarinnar. „Ríkisstjórnin réði ekki tímasetningunni á veiðileyfagjaldinu. Þá ákvörðun þurfti að taka á sumarþingi,“ segir Hulda. „Ég tek enga efnislega afstöðu til þessara tveggja mála en auðvitað er það gömul stjórnkænska að hespa óvinsælu málunum af sem fyrst. Mögulega hefur ríkisstjórnin haft það í huga, fyrst hún mat það svo að veita þyrfti þessum málum brautargengi. Þegar þau eru frá getur hún vonandi snúið sér af fullum krafti að öðru nú með haustinu.“

Þrjú meginverkefni

Að áliti Gunnars Helga mun þrennt mæða sérstaklega á ríkisstjórninni á komandi vetri.

Í fyrsta lagi hvernig stjórnarflokkunum gangi að koma sér saman um þær meginaðgerðir sem þeir boðuðu eftir kosningar. „Þar ber auðvitað hæst hvernig þeir hyggjast lækka skuldir heimilanna. Ekki var litlu lofað,“ segir hann.

Í öðru lagi mun reyna á ríkisstjórnina í þeim kjarasamningum sem standa fyrir dyrum.

Í þriðja lagi eru það sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor. Þá fyrst verði verk stjórnarinnar lögð í dóm kjósenda.

 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert