Misskilningur hjá Færeyingum

Þórshöfn í Færeyjum.
Þórshöfn í Færeyjum.

Sigurgeir Þorgeirsson, samningamaður Íslands í makríldeilunni, sendi bréf í kjölfar fréttar mbl.is til Kringvarpsins í Færeyjum þar sem hann útskýrir stöðu Íslands gagnvart löndum á færeyskum makríl- og síldarafla. Í bréfinu segir að ummæli Jacobs Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyinga, séu á misskilningi byggð.

Ráðherrann sagði í færeyskum fjölmiðlum að Færeyingar hefðu fengið skilaboð frá Íslandi í fyrra um að Íslendingar kærðu sig ekki um að landa færeyskum fiski.

 Ekkert bann sé í gildi þess efnis að ekki megi landa síld úr færeyskum skipum í íslenskum höfnum og að slíkt bann hafi aldrei verið í gildi, ekki einu sinni eftir að Færeyingar sögðu sig frá samkomulagi um síldveiðar.

Sjálfvirkt bann þegar ekkert samkomulag er til staðar

Í tilvikum þar sem til staðar sé samkomulag um fiskveiðar, en tiltekið land eigi ekki aðild að því samkomulagi eða lúti ekki þeim reglum sem kveðið er á um í samkomulaginu geti sjávarútvegsráðherra sett á löndunarbann á tilteknar tegundir frá skipum umrædds lands. Það sé hins vegar ekki uppi á teningnum, því ekkert slíkt bann hafi verið sett á gagnvart færeyska fiskiskipaflotanum. Hann ítrekar jafnframt að Íslengingar hafi fordæmt löndunarbann Evrópusambandsins á Færeyjar.

Hvað makríl snertir segir hins vegar í bréfinu að ekkert samkomulag sé til staðar. Við slíkar aðstæður sé í raun um sjálfvirkt löndunarbann að ræða á öll erlend skip sem vilji landa makríl á Íslandi. Sjávarútvegsráðherra geti á hinn bóginn gert undantekningar á þessu banni við sérstakar aðstæður, eins og gert hafi verið fyrir grænlensk skip í sumar sem og árið 2012.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert