Konurnar 25 sem hafa fengið skjól í Kristínarhúsi eru á ýmsum aldri, sú yngsta 18 ára en sú elsta á sextugsaldri. Tæplega helmingur er frá öðrum löndum. Sumar hafa stundað vændi lengi, aðrar skemur.
Sumar eru nýhættar að stunda vændi, í öðrum tilvikum eru áratugir frá því þær hættu. Ein sem þar dvaldi var aðeins 12 ára gömul þegar hún var seld í vændi og flæktist síðan víða um Evrópu þangað til hún kom hingað 25 ára gömul.
Þórunn Þórarinsdóttir, umsjónarkona Kristínarhúss, segir að erfitt sé að alhæfa um sameiginleg einkenni hópsins sem leitað hefur í Kristínarhús. Hennar reynsla af viðtölum við konur og karla sem hafa stundað vændi sé þó sú að mikil skömm tengist ástundun vændis.
„Það er skömm tengd öllu ofbeldi en hún er rosalega mikil og djúpstæð hjá þeim sem hafa stundað vændi,“ segir hún.
Í Kristínarhúsi geta konur sem eru á leið úr vændi eða hafa einhvern tíma stundað vændi fengið að búa, hafi þær ekki í önnur hús að venda. Frá því húsið var opnað árið 2011 hafa 25 konur búið þar, sumar stutt en aðrar um margra mánaða skeið. Mun fleiri leita til Stígamóta vegna vændis en þær sem fá inni í Kristínarhúsi.
Þórunn hefur lengi starfað hjá Stígamótum og hefur mikla reynslu af því að aðstoða fólk sem leitar þangað, m.a. vegna vændis. Hún segir að flestar konur sem þangað komi hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi áður en þær leiddust út í vændi. Sumar hafi byrjað í vændi og síðan leiðst út í eiturlyf, aðrar hafi byrjað að neyta fíkniefna en síðan talið sig þurfa að stunda vændi til að fjármagna neysluna.
Nokkrar afrískar konur sem höfðu verið seldar í vændi hafa leitað til Stígamóta. Ein þeirra, kona frá Nígeríu, hafði verið seld í vændi þegar hún var 12 ára gömul. Síðan þá hafði hún verið send á milli ýmissa landa áður en hún kom til Íslands, 25 ára gömul. Þórunn segir að afrísku konurnar séu í slæmri stöðu. Það sé erfitt fyrir þær að segja allt af létta. Oft sé búið að láta þær sverja alls kyns eiða um að þær megi ekki segja frá, en geri þær það eigi þær á hættu að missa vitið eða jafnvel deyja.
Búið sé að telja þeim trú um að þær skuldi fyrir ýmislegt, s.s. ferðir og uppihald, og með vændinu séu þær að endurgreiða þá skuld – sem takist aldrei. Einnig hafi þeim verið hótað að fjölskyldur þeirra fái að kenna á afleiðingunum. Konurnar hafi oft á tíðum verið sendar í fjölmargar fóstureyðingar. „Og þær fara ekki fram á spítala,“ segir Þórunn.