Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, bendir á að sá vandi sem Landspítalinn sé kominn í hafi lengi verið fyrirséður. Þrátt fyrir það sé það alls ekki eingöngu á könnu heilbrigðisráðuneytisins að leysa þennan vanda.
„Þetta er í sjálfu sér ekki ný staða,“ segir Kristján. „Ég hef bent á þetta áður, bæði í greinum og í umræðum í sumar og haust. Ráðuneytið hefur engan töfrasprota til að leysa þetta í einu vetfangi. Það er miklu frekar að þetta sé sameiginlegt vandamál okkar allra sem þarfnast lausnar með aðkomu margra aðila.“
Hann segir ráðuneytið þó vafalítið hafa forgöngu um það með heilbrigðisstéttum að finna lausn á vandanum. „Þetta er bara mjög alvarleg staða.“
Í grein sem ráðherrann skrifaði í Morgunblaðið 11. júlí síðastliðinn um stöðu heilbrigðismála á Íslandi segir hann meðal annars að Íslendingar eigi nú tvo kosti í heilbrigðismálum.
Annar þeirra sé að halda áfram á þeirri braut sem þjóðin hafi verið á og horfi upp á heilbrigðiskerfið molna hægt en örugglega niður. Hinn sé að taka ákvörðun um þjóðarsátt um að verja heilbrigðiskerfið, endurskipuleggja það og byggja upp að nýju. Forsenda slíkrar þjóðarsáttar er að grunnþjónustan um allt land sé varin og að þingmenn taki erfiðar ákvarðanir um forgangsröðun ríkisútgjalda, segir í greininni.
Kostnaður vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar og vegna lífstílssjúkdóma sé staðreynd sem ekki verði horft framhjá. Hann gagnrýnir í greininni forgangsröðun fjármuna ríkisins, sem séu af skornum skammti. Verði ekkert að gert muni vandinn eingöngu aukast.
Þá segir Kristján: „Stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er skýr og gefur fyrirheit um að nýjum vinnubrögðum verði beitt í stað þess að velta vandanum stöðugt á undan sér líkt og gert hefur verið. Í stefnuyfirlýsingu segir meðal annars: „Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.“
Það er í samræmi við þessa stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem ég mun starfa sem heilbrigðisráðherra. Verkefnið er að leysa þann vanda sem við er að glíma og tryggja að undirstöðurnar séu traustar. Þegar því verkefni er lokið getum við hugað að því að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar, m.a. í nýju tæknivæddu sjúkrahúsi sem á að þjónusta alla landsmenn og þá getum við horft bjartsýn til framtíðar,“ segir í grein Kristjáns frá því í sumar.