Fleiri utangarðsmenn sækja nú í Gistiskýlið í Reykjavík en nokkru sinni fyrr og er nýtingin um 97% að meðaltali. Nú stendur yfir leit að nýju húsnæði þannig að hægt væri að fjölga plássum. Stífar reglugerðir geta hins vegar gert viðbrögð við brýnum aðstæðum erfiðari.
Þetta segir Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, en hann hefur lengi unnið að málefnum heimilislausra í borginni. Þá telur Kristín Helga Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Konukots, að meiri áherslu mætti leggja á að veita heimilislausum varanleg búsetuúrræði.
Samkvæmt tölum júlímánaðar frá Konukoti og Gistiskýlinu nýttu sér rúmlega 100 einstaklingar þjónustuna frá einni nóttu og upp í 30 nætur mánaðarins. Nánast allir sem þangað koma hafa íslenska kennitölu þótt útlendingum hafi farið fjölgandi. Nýtingin hefur farið mjög vaxandi á þessu ári, eða frá um 70% nýtingu að meðaltali á undanförnum árum upp að því að vera tæplega 100% að sögn Sigtryggs.
Gistiskýlið býður upp á næturgistingu fyrir 20 karlmenn. Óheimilt er að taka við einstaklingum yfir þeim fjölda og því þarf að vísa öðrum frá. Frávísanir hafa aukist verulega, en á fyrstu fjórum mánuðum ársins var 111 heimilislausum karlmönnum vísað frá Gistiskýlinu vegna plássleysis. Á sama tíma í fyrra var 24 vísað frá af sömu ástæðu. „Nýr hópur notenda velferðarþjónustu varð til með hruninu og afleiðingum þess í auknu atvinnuleysi. Ásóknin í úrræði okkar hefur aldrei verið eins mikil,“ segir Sigtryggur.
Í Konukoti er pláss fyrir átta konur. Húsnæðið býður hins vegar upp á þann möguleika að hægt er að taka við konum umfram rúmpláss og því hefur ekki komið til þess að vísa þurfi neinum frá. Þeim konum sem ekki er unnt að veita rúmpláss er gefinn möguleiki á að hvílast til dæmis í sófa.
Sigtryggur segir að leit að nýju húsnæði fyrir gistiskýli standi nú yfir, en það geti þó reynst erfitt að finna, sökum margra skilyrða sem húsnæðið þarf að uppfylla. „Þetta er háð svo mörgum atriðum; það þarf að vera miðsvæðis, þarf að vera í sátt við íbúa og staðsett þannig að það nýtist vel.“
Margir þeirra sem nýta sér þjónustu Gistiskýlisins og Konukots teljast reglulegir gestir og gista þar margar nætur í mánuði. Kristín Helga telur að horfa þurfi til þess hversu oft og lengi sumir einstaklingar séu að koma án þess að fá önnur úrræði og þá hvaða möguleika sá sem sannarlega er heimilislaus eigi á búsetuúrræðum.
„Það er hægt að gefa sér að það að vera á götunni hafi slæm áhrif á sjálfsmynd fólks, sem gerir því erfiðara að losna úr viðjum fíknarinnar. Það er einfaldara að komast að manneskju og aðstoða hana ef við vitum hvar hún á heima. Við þurfum að skoða hvað okkur finnst ásættanlegt að manneskja sé lengi í þessari stöðu,“ segir Kristín.
Í Reykjavík eru starfrækt fjögur heimili sem teljast til búsetuúrræða fyrir heimilislausa. Í smáhýsunum er búseta fyrir fjóra til átta einstaklinga og pör, þá er heimili fyrir karla í vímuefnavanda þar sem pláss er fyrir átta karlmenn, heimili fyrir konur í vímuefnavanda þar sem pláss er fyrir fimm konur, ásamt heimili fyrir karla með geðfötlun og vímuefnafíkn með plássi fyrir átta. Í þessum úrræðum er því samtals pláss fyrir 24-29 einstaklinga sem eru heimilislausir og glíma við áfengis- eða vímuefnafíkn.
„Ef við lítum á fíkn og afleiðingu fíknar sem sjúkdóms skýtur það svo skökku við að gatan þyki undir einhverjum kringumstæðum ásættanlegur staður fyrir þá sem eru krónískt veikir. Það þætti líklega ekki henta fyrir aðra sjúklinga með annars konar sjúkdóm,“ segir Kristín.
Sigtryggur segir félagsráðgjafa koma vikulega í Gistiskýlið og Konukot og láti þá vita ef einstaklingar koma þangað ítrekað. „Það er fylgst með þessu og ég fæ vikulega upplýsingar um hverjir þetta eru, rætt er við manneskjurnar og farið er af stað með ferli þar sem reynt er að útvega þeim varanlegra húsnæði. Almenna reglan er sú að ef einstaklingur kemur í fleiri en 10 nætur í mánuði er reynt að bregðast við. Hins vegar vilja sumir einfaldlega ekki þiggja slíka aðstoð og svo eru ekki nógu mörg pláss til fyrir þá sem enn eru í neyslu.“
Sigtryggur segir að þörf sé fyrir fleiri búsetuúrræði en erfitt geti þó verið að koma upp slíku húsnæði. „Við Íslendingar gerum stundum of miklar kröfur, við erum til dæmis með miklu dýrara húsnæði en í nágrannalöndum og leggjum meira í það. Þegar við vorum að koma smáhýsunum fyrir áttum við í miklum vandræðum með ýmsar reglugerðir. Ég tel að það mætti skoða að setja undanþágu í reglurnar, þannig að hægt væri að bregðast við brýnum málum án þess að uppfylla allar reglugerðir. Síðan þegar búið er að bjarga málunum væri hægt að róa sig aðeins og skoða hvernig þetta samræmist,“ segir Sigtryggur.
Samkvæmt úttekt velferðarsviðs Reykjavíkurborgar frá því í mars síðastliðnum eru 179 heimilislausir einstaklingar á Íslandi. Ekki eru allir einstaklingar þess hóps Reykvíkingar þótt flestir haldi þar til.
Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á Íslandi sem veitt hefur heimilislausum aðstoð, með úrræðum líkt og Gistiskýlinu og Konukoti. Þar sem Reykjavíkurborg fjármagnar slík úrræði hafa einstaklingar með lögheimili í Reykjavík forgang fram yfir þá sem ekki eru með lögheimili í borginni. Nú þegar oft er yfirfullt í Gistiskýlinu er þeim sem koma úr öðrum sveitafélögum því fyrst vísað út á gaddinn.
„Fólk sem annaðhvort velur sér þennan lífstíl eða lendir í honum flytur sig til Reykjavíkur, það er eina sveitarfélagið þar sem hægt er að vera utangarðs,“ segir Sigtryggur. Þótt einstaklingar úr öðrum sveitafélögum nýti sér þjónustuna er Reykjavíkurborg ein um kostnaðinn. Sigtryggur segir að í mörg ár hafi verið biðlað verið til annarra sveitarfélaga um þáttöku í kostnaðinum, en viljinn virðist ekki vera fyrir hendi.