Aðalmeðferð í Al-Thani-málinu svonefnda hefst mánudaginn 4. nóvember og stendur í tvær vikur. Um 50 vitni hafa verið boðuð til að mæta fyrir dóm í málinu. Þetta kom fram við fyrirtöku málsins við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun.
Að öðru leyti kom fátt nýtt fram við fyrirtökuna. Ákæruvaldið lagði fram þýðingar á skjölum og í kjölfarið var rætt um hvort spyrja ætti úr frumtextanum, sem er á ensku, eða þýðingunum. Voru ákæruvaldið og verjendur sammála um að líklegast væri betra að spyrja úr frumtextanum. Dómari málsins tók undir það en minnti einnig á að þingmálið sé íslenska. Engin ákvörðun var tekin um þetta atriði en aðilar munu ræða það sín á milli áður en kemur að aðalmeðferðinni.
Fjórir eru ákærðir í málinu þeir Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson
Verjandi Ólafs Ólafssonar lagði fram upplýsingar um fjárfestingaverkefni í Íran og í París. Hann sagði að um væri að ræða verkefni sem Ólafur vann að með Al-Thani og skýri hvers vegna þeir voru samtaka þegar kom að kaupunum í Kaupþingi.