Nýnemar við Fjölbrautaskóla Garðabæjar voru beittir grófu ofbeldi af eldri nemendum skólans, eftir að formlegri busavígslu var lokið. Skólastjórnendum í FG hefur lengi verið í nöp við busanir og hafa þeir nú tekið þá ákvörðun að fleiri busavígslur verði ekki haldnar.
Kristinn Þorsteinsson skólameistari FG ritar í dag grein í fréttablað skólans, sem sent er bæði til nemenda og forráðamanna, þar sem kemur fram að undanfarin ár hafi svo kallaðar einkabusanir færst í vöxt, eftir að hefðbundinni busavígslu innan skólans sé lokið.
„Þar taka eldri piltar, sumir hverjir ekki einu sinni nemendur í skólanum, nýnema FG og beita þá ótrúlega grófu ofbeldi,“ segir Kristinn.
Þegar skólastjórnendur áttuðu sig á þessari þróun töldu þau að auðvelt yrði að koma í veg fyrir það með því að skipuleggja ferðir að busavígslu lokinni, til að koma nýnemum í „öruggt skjól“. „Okkur til mikillar undrunar og vonbrigða hefur talsverður hópur nýnema sleppt því að fara í þessar ferðir til þess eins að láta beita sig grófu ofbeldi og eru þannig orðnir viljugir þátttakendur,“ segir Kristinn.
Busavígslan í ár fór fram á föstudaginn var. Hún var að sögn Kristins vel skipulögð og að flestu leyti innan þeirra marka sem skólastjórnendur settu nemendum. Að henni lokinni var farið í nýnemaferð til Stokkseyrar sem tókst mjög vel, en ekki fóru allir nýnemar í ferðina.
„Talsverður hópur kaus að fara ekki með gagngert til að taka þátt í einkabusun. Þessar einkabusanir fóru um víðan völl,“ segir Kristinn. Skólayfirvöldum bárust m.a. kvartanir úr Garðaskóla, Hafnarfirði, Verslunarskólanum og Kringlunni vegna framferðis þessara nemenda.
„Í öllum tilfellum voru þar piltar með nýnema úr FG og beittu þá grófu ofbeldi. Við sögu komu fiskikör með úrgangi og úldnum kjúklingum, nýnemum var hent í sjóinn, hendur bundnar aftur fyrir bak og girt niður um nýnema og ógeðsdrykk hent um ganga Verslunarskólans, hundaólar og fleira mætti telja upp.“
Kristinn segir þessa ungu pilta hafa orðið sjálfum sér, foreldrum sínum og skólanum til skammar. Skólastjórnendum sé nú ljós sú staðreynd að busavígslan í FG sé einhverjum piltum hvatning til að beita samborgara sína grófu ofbeldi.
„Svona getur þetta ekki gengið. Viðbrögð skólans verða af tvennum toga. Í fyrsta lagi sendum við foreldrum þeirra drengja sem við vitum að tóku þátt bréf þar sem við förum fram á að á þessu verði tekið á heimilinu. Við vitum að við höfum ekki nema hluta nafnanna en teljum rétt að koma því sem við vitum á framfæri.
Í öðru lagi verða ekki fleiri busavígslur í FG. Við munum auðvitað bjóða nýnema áfram velkomna og nýnemaferðir verða áfram á dagskrá. En við getum ekki lengur verið einhverjum ofbeldisseggjum skálkaskjól til að svala ofbeldisþörf sinni.“