Sofnaði í miðju hlaupi

Á hlaupum.
Á hlaupum. Ljósmynd/Börkur Árnason.

„Það var ævintýralegt að koma í mark,“ segir Helga Þóra Jónasdóttir, þrítug hlaupadrottning og nemi á þriðja ári í sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands, en hún lauk 168 kílómetra löngu hlaupi í gær. Hlaupið er um fræga gönguleið í Mont Blanc í gegnum Frakkland, Sviss og Ítalíu og er hækkunin 9.500 metrar. Hlaupið jafngildir því að hlaupa frá Reykjavík að Staðarskála og yfirstíga hækkun sem samsvarar því að fara tæplega sextán sinnum upp að Steini á Esjunni. Helga er fyrsta íslenska konan sem lýkur þessari vegalengd í hlaupinu en áður hafa þrír íslenskir karlmenn lagt kílómetrana að baki.

Fyrstu tuttugu kílómetrarnir brösóttir

Aðspurð segir Helga að hlaupið sé fjórða hlaupið í lengri kantinum sem hún hefur lokið. Hún hefur meðal annars hlaupið nokkur maraþon, farið Laugaveginn (55km) þrisvar og Transgrancanaria hlaupið á Kanaríeyjum en það er 123 kílómetra langt og felur í sér 4.500 metra hækkun. Vegalengdin sem Helga Þóra lauk við um helgina var sú lengsta sem hún hefur hlaupið og var hún svo sannarlega búin að hita vel upp fyrir hlaupið.

„Heilt á litið gekk hlaupið betur en ég hafði ímyndað mér,“ segir Helga í samtali við blaðamann mbl.is. „Fyrstu tuttugu kílómetrarnir voru brösóttir og komst ég ekki í gang en síðan voru næstu sjötíu rosalega góðir, ég var fáránlega hress og gekk vel að næra mig.“ Helga segist hafa brennt sig á því að skipta um skó, en það var hún búin ákveða fyrirfram.

„Ég klikkaði í lærvöðvunum og þurfti að hægja á mér.“ Hún viðurkennir að þarna hafi hún verið orðin smeyk um að hún næði ekki að ljúka hlaupinu, þar sem vöðvarnir í framlærunum hafi verið orðnir lúnir og því hafi verið erfitt að fara niður brekkurnar.

Plástraði sveittar tærnar fyrir Helgu

Helga hljóp meira og minna ein en hafði leyfi til að vera með aðstoðarfólk sem tók á móti henni á drykkjarstöðvunum, en það voru þau Geir Harðarson, kærasti Helgu, og hlaupakonan Elísabet Margeirdóttir, en þær hafa æft saman fyrir hlaupið. „Maður verður grillaður í höfðinu á svona löngum vegalengdum og því var frábært að hafa þau innan handar,“ segir Helga. „Maður kom inn á matarstöðvarnar og þau tóku stjórnina og pössuðu upp á að maður gerði það sem maður þurfti að gera.“

Á tímabili missti Helga matarlystina en þá pössuðu þau upp á að hún nærðist vel. „Elísabet tók mig úr sokkunum, plástraði mig og setti vaselín,“ segir Helga. „Hún bliknaði ekki einu sinni þrátt fyrir að tærnar væru orðnar vel soðnar eftir einn og hálfan sólarhring í skóm.“

Henti sér á bekk og grúfði sig fram

Hlaupið náði yfir tvær nætur en hlaupararnir sofa yfirleitt lítið. „Fyrri nóttin var í lagi en seinni nóttina sofnaði ég bara á hlaupum og vaknaði við að ég var að detta út á grasið,“ segir Helga og kveðst ekki upplifað nokkuð þessu líkt áður. Hún settist á stein og hvíldi sig í fimm mínútur. Þegar Helga lagði af stað í síðasta legginn var hún farin að rása til og frá. „Ég henti mér á bekk og grúfði mig fram,“ segir Helga.

Starfsmaður hlaupsins kom til hennar og kannaði hvort ekki væri í lagi. Helga kvaðst vera afar syfjuð og sagði starfsmaðurinn henni því að leggjast á bekkinn. „Hann spurði hvað ég vildi sofa lengi, breiddi yfir mig fötin sem hann hafði, tók tímann og leyfði mér að sofa,“ segir Helga. „Eftir stuttan lúr vakti hann mig og ég fór aftur af stað.“

Kærasti Helgu og fylgdarlið hljóp samferða henni síðustu fjóra kílómetranna. Hlaupið er í gegnum þorp síðasta einn og hálfa kílómetrann þar sem margt fólk kemur saman og hvetur hlauparana á lokasprettinum. „Ég er mjög ánægð að hafa klárað, það er ekki sjálfgefið.“

Í kvöld flýgur hún heim til Íslands og tekur hversdagsleikinn við á morgun þar sem hún hefur verknám á Eir, en Helga er nemi á þriðja ári í sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands. „Maður verður líklega lúinn á morgun en reynir þó að halda haus,“ segir Helga, glöð í bragði.

Helga Þóra Jónasdóttir og Elísabet Margeirsdóttir. Þær æfðu saman fyrir …
Helga Þóra Jónasdóttir og Elísabet Margeirsdóttir. Þær æfðu saman fyrir hlaupið og aðstoðaði Elísabet Helgu í á matar- og drykkjarstöðvunum. Úr einkasafni.
Helga Þóra á leið í markið í gær.
Helga Þóra á leið í markið í gær. Ljósmynd/Sigrún Árnadóttir
Á leið í mark.
Á leið í mark. Ljósmynd/Sigrún Árnadóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert