„Fyrirfram í upphafi skólaárs getur verið nokkuð erfitt að átta sig á því hvað sé nægjanlegt magn af vögnum,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, í samtali við mbl.is spurður út í atvik sem átti sér stað í Hamraborg í Kópavogi í morgun þegar strætisvagn á leið 1 úr Hafnarfirði gat ekki tekið alla þá farþega sem ætluðu með honum. Hann bendir á að í dag hafi til dæmis allar hugvísindadeildir Háskóla Íslands verið að hefja fyrsta skóladag.
„Þetta var því miður svona og það varð að skilja einhverja eftir en mér skilst að það hafi verið sendur fljótlega annar bíll á vettvang þannig að fólk hafi sem betur fer ekki þurft að bíða lengi. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem við eigum við að etja. Fjölgunin er öll á annatíma. Það getur verið talsvert erfitt að lesa í þetta og við verðum yfirleitt ekki vör við það fyrr en við þreifum á því. En við erum allajafna með eitthvað af vögnum til þess að grípa til og líka í gegnum samstarfsaðila okkar. En svona viðbragð tekur alltaf 10-15 mínútur þrátt fyrir það,“ segir hann ennfremur.