Síðasta sprengingin í aðrennslisgöngum Búðarhálsvirkjunar fór fram í gær og eru göngin nú að fullu opin. Um stóran áfanga í verkinu er að ræða en fjögurra kílómetra löng aðrennslisgöngin munu flytja vatn frá Sporðöldulóni, undir Búðarháls og að vélum virkjunarinnar.
Gröftur gangnanna hófst í maí 2011 og voru þau grafin þannig að fyrst var efri hluti gangasniðsins grafinn í gegnum fjallið og síðan neðri hluti þess. Slegið var í gegn í efri hluta þann 27. nóvember 2012.
Jarðgangnavinnan hefur verið krefjandi sökum jarðfræðilegra aðstæðna en bergið hefur reynst bæði hart og sprunguskorið á köflum. Þrátt fyrir krefjandi aðstæður hefur vinnan sóst vel en erfiðar aðstæður hafa á tíðum orsakað nokkrar tafir á lúkningu gangnanna.
Nú þegar gangnagreftri er lokið tekur við um mánaðarvinna við frágang og hreinsun ganga ásamt því að lokið verður við uppsteypu gangnainntaks og gröft aðrennslisskurðar að göngunum. Áætlað er að göngin verði vatnsfyllt í nóvember.
Búðarhálsvirkjun er virkjun í Tungnaá og Köldukvísl og nýtir um 40 metra fall í ánni frá frávatni Hrauneyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Uppsett afl stöðvarinnar verður 95 MW og árleg orkuvinnslugeta er áætluð 585 GWst.
Búðarhálsvirkjun verður rekin samhliða öðrum virkjunum Landsvirkjunar á Þjórsár- Tungnaársvæðinu. Með Búðarhálsvirkjun verður búið að fullnýta fall frá Þórisvatni niður fyrir Sultartanga sem er í samræmi við það hlutverk fyrirtækisins að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi, að því er segir í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.