Umboðsmaður gagnrýnir Bílastæðasjóð

Stöðumælavörður að störfum í miðborginni.
Stöðumælavörður að störfum í miðborginni. Morgunblaðið/RAX

Umboðsmaður Alþingis hefur gert athugasemd við álagningarseðli Bílastæðasjóðs Reykjavíkur og óskað eftir að sjóðurinn taki mál manns sem leitaði til umboðsmanns fyrir að nýju.

Málavextir eru þeir að 6. október 2012 lagði maðurinn bifreið sinni við hliðina á gangstétt sem liggur að húsnæði í Reykjavík. Við stæðið var skilti þar sem á stóð „Vöruafgreiðsla“. Neðar á skiltinu kom fram: „Bifreiðastöður bannaðar“. 

Samkvæmt því sem kemur fram í kvörtuninni var bifreið hans fullhlaðin af vörum í tengslum við rekstur húsnæðisins og afmæli sem halda átti í því um kvöldið. Hann hafði farið nokkrar ferðir með vörur/hluti úr bifreiðinni inn í húsnæðið og upp á efri hæðir þess. Hann varð að loka og læsa bifreiðinni á milli þess sem hann fór inn í húsnæðið. Einhverjar mínútur liðu á milli þar til hann kom út á ný. Hurð húsnæðisins var hálfopin á meðan á þessu stóð. Þegar hann kom út eftir þriðju ferðina hefði hann hitt bílastæðavörð og rætt við hann um í hvaða erindagjörðum hann væri og ástæðu þess að bifreiðin væri í stæðinu. Bílastæðavörðurinn hefði sagt að hann hefði þegar skráð bifreiðina í kerfið hjá sér en hann gæti sent inn andmæli á heimasíðu Bílastæðasjóðs Reykjavíkur til að fá leiðréttingu mála sinna. 

Maðurinn fékk í framhaldinu álagningarseðil frá Bílastæðasjóði Reykjavíkur en á honum kom fram að lagt væri stöðubrotsgjald á hann að upphæð kr. 5.000 fyrir að leggja bifreið sinni í stæðið.

Maðurinn leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds vegna bifreiðar hans og málsmeðferð sjóðsins í því máli. 

Settur umboðsmaður taldi að útskýringar mannsins, ef sannar reyndust, hefðu verið til þess fallnar að lögum að hafa verulega þýðingu fyrir það hvort honum hefði með réttu verið gert að greiða umrætt gjaldið. Bílastæðasjóði hefði því borið samkvæmt ákvæðum  stjórnsýslulögum að leiðbeina honum um að leggja fram gögn sem hefðu verið til þess fallin að renna stoðum undir staðhæfingar hans. Þar sem á það hefði skort var það niðurstaða setts umboðsmanns að málsmeðferð bílastæðasjóðs hefði ekki verið í samræmi við þessi ákvæði stjórnsýslulaga. Ákvörðun sjóðsins um synjun á beiðni mannsins um endurskoðun ákvörðunar um álagningu gjaldsins hefði því verið ólögmæt. 

Þá taldi settur umboðsmaður að upplýsingar á álagningarseðli bílastæðasjóðs hefðu ekki fullnægt kröfum 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings. Hefði sjóðnum borið samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. sömu laga að veita manninum leiðbeiningar um heimild hans til að fá ákvörðun um álagningu stöðubrotsgjaldsins rökstudda. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert