58 ára karlmaður hefur verið ákærður fyrir að svíkja samtals 117 milljónir króna út úr 16 einstaklingum. Auðgunarbrotin ná langt aftur í tímann.
RÚV sagði frá þessu máli í fréttum í kvöld. Málið er nú til umfjöllunar í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Fram kom í fréttinni að maðurinn hefði áður verið dæmdur í fangelsi fyrir að féfletta háaldraða ekkju árið 1999. Hann sat hins vegar ekki í fangelsi fyrir það brot því að hann var náðaður.
Maðurinn er sagður tungulipur og sannfærandi. Hann bauð fólki að ávaxta fé með kaupum á gjaldeyri og gjaldeyrisviðskiptum. Í fréttinni segir að sum fórnarlömb mannsins séu nær eignalaus vegna svika mannsins.
Í ákærunni kemur fram að svik mannsins frá hverjum og einum séu frá tveimur milljónum króna upp í rúmar 16 milljónir.