Námsmenn verða að hinkra

Lánasjóður íslenskra námsmanna.
Lánasjóður íslenskra námsmanna. Árni Sæberg

Nokkur ólga er meðal stúdenta eftir að í ljós kom að Lánasjóður íslenskra námsmanna gerir enn ráð fyrir að lágmarksnámsframvindukrafa sé 22 einingar á önn, þrátt fyrir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi á föstudaginn fellt dóm þar sem viðurkennd var krafa þess efnis að LÍN væri óheimilt að krefjast þess að námsmaður ljúki fleiri en 18 einingum á önn.

Allajafna er gefinn þriggja mánaða frestur til áfrýjunar mála til Hæstaréttar en í ljósi þess að málið fékk flýtimeðferð er fresturinn aðeins þrjár vikur. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, sagði í samtali við RÚV síðastliðinn föstudag að málinu yrði áfrýjað og þá sagði lögmaður LÍN, Sigurbjörn Magnússon, í samtali við mbl.is að honum þætti eðlilegt að áfrýja dómnum. Að sögn Sigurbjörns hefur málinu ekki verið áfrýjað.

Ekki vit í að gefa væntingar til námsmanna

„Það er ekkert vit í því að gefa einhverjar væntingar til námsmanna á þessum tíma, á þessum þremur vikum,“ sagði Sigurbjörn í samtali við mbl.is. Hann bendir á að aðeins séu liðnir örfáir dagar síðan dómur féll í héraðsdómi og nú sé unnið að því að taka ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað.

„Verði dómnum áfrýjað, þá frestar áfrýjunin framkvæmd dómsins,“ sagði Sigurbjörn og bætir við að stjórn LÍN hafi ekki breytt framkvæmd mála að svo stöddu. „Ég tel eðlilegt að breyta því ekki á meðan þessi frestur er á líða.“

En hvað geta þeir nemendur sem hyggjast taka færri en 22 einingar á önn í vetur gert? „Þeir verða að hinkra og sjá til,“ segir Sigurbjörn.

Síðasti dagur til að endurskoða námskeiðaskráningar á námskeiðum fyrir haustönn í Háskóla Íslands er 10. september næstkomandi. Verði ekki tekin ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað eður ei fyrir þann tíma, má gera ráð fyrir að einhverjir nemendur kjósi að hætta við nám á haustönn þar sem þeir geta ekki gert ráð fyrir framfærslu.

Frétt mbl.is: LÍN hlítir ekki dómi héraðsdóms

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert