Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fundaði í kvöld með leiðtogum Norðurlandanna og Barack Obama forseta Bandaríkjanna í Stokkhólmi. Meðal umræðuefna voru efnahagsmál, loftslagsmál, málefni norðurslóða og utanríkis- og öryggismál. Málefni Sýrlands voru ítarlega rædd á fundinum.
Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að Sigmundur Davíð hafi á fundinum leitt umræðu um norðurslóðir og fjallaði meðal annars um þau tækifæri og áskoranir sem fælust í breytingum sökum loftslagsbreytinga, jafnt í efnahagslegu, félagslegu, umhverfislegu og öryggislegu tilliti. Áréttaði ráðherra mikilvægi svæðisbundinnar samvinnu, m.a. innan vébanda Norðurskautsráðsins.
Undir öðrum umræðuliðum kom forsætisráðherra meðal annars inn á möguleika jarðhita og reynslu Íslands þar að lútandi, meðal annars í þróunarsamvinnu, og mikilvægi útbreiðslu þekkingar í austanverðri Afríku sem meðal annars á sér stað í Jarðhitaskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.Einnig fjallaði forsætisráðherra um mikilvægi samstarfs Norðurlandanna við Eystrasaltsríkin.
Jafnframt voru ræddar öryggisáskoranir 21. aldar og auknir möguleikar Norðurlandanna og Bandaríkjanna til samstarfs á ýmsum sviðum, m.a. á sviði öryggismála, orkumála og samstarfs á norðurslóðum, ekki síst á vettvangi Norðurskautsráðsins.
Málefni Miðausturlanda, einkum Sýrlands, fengu ítarlega umfjöllun á fundinum. Bandaríkjaforseti útlistaði rök Bandaríkjastjórnar fyrir takmarkaðri hernaðaríhlutun, sem nú er til umfjöllunar á Bandaríkjaþingi. Sigmundur Davíð áréttaði mikilvægi þess að leita áfram friðsamlegra lausna á deilunni. Þar hefði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna meginhlutverki að gegna og brýnt væri að öryggisráðið axlaði ábyrgð á því hlutverki sínu.