Afgangurinn tífalt hærri en áætlað var

Rekstrarafgangur Kópavogsbæjar er jákvæður um 652 milljónir króna, samkvæmt hálfs árs uppgjöri bæjarins, en áætlað var að hann yrði 63 milljónir króna. Munurinn skýrist fyrst og fremst af rúmlega 400 milljóna króna gengishagnaði og um 105 milljóna króna tekjum vegna úthlutunar á byggingarrétti fyrstu sex mánuði ársins.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kópavogsbæ, en uppgjörið var kynnt í bæjarráði í morgun og síðan sent Kauphöll Íslands. Tekið er fram að uppjörið sé bæði óendurskoðað og ókannað.

„Skuldir Kópavogsbæjar hafa lækkað um rúma tvo milljarða frá áramótum að því er fram kemur í uppgjörinu. Mikil áhersla hefur verið lögð á niðurgreiðslu skulda undanfarin misseri til að lækka vaxtagjöld og auka svigrúm í rekstrinum. Skuldahlutfall bæjarins, þ.e.a.s. skuldir á móti tekjum, hefur lækkað úr 206% um áramótin niður í 197% nú um mitt ár, að gefnum tilteknum forsendum.

Uppgjörið  er notað innanhúss til að athuga hvernig rekstrarkostnaður hefur þróast og myndar það grunn að útkomuspá ársins 2013 og fjárhagsáætlun ársins 2014,“ segir í tilkynningu frá bænum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert