Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) og Landssamband eldri borgara (LEB) hvetja stjórnvöld til að halda áfram að efna loforð sem gefin voru fyrir síðustu kosningar um að afnema kjara- og réttinda skerðingar sem gerðar voru á greiðslum til eldri borgara og öryrkja árið 2009. Til að hvetja ríkisstjórnina og þingheim til dáða boða ÖBÍ og LEB til hvatningarfundar á Austurvelli næstkomandi þriðjudag kl. 15:00.
Þar munu Guðmundur Magnússon formaður ÖBÍ og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður LEB flytja hvatningarávörp og lúðrasveit leika ættjarðarlög „enda hillir nú undir að þær alvarlegu skerðingar sem eldri borgarar og öryrkjar hafa búið við síðustu fjögur ár verði leiðréttar,“ eins og segir í fréttatilkynningu frá samtökunum.
„Í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga gáfu núverandi stjórnarflokkar loforð um að það yrði forgangsmál að afturkalla tafarlaust og afturvirkt kjara- og réttindaskerðingar aldraðra og öryrkja sem tóku gildi árið 2009. Það lofaði góðu þegar stjórnarflokkarnir ákváðu á þinginu fyrr í sumar að afturkalla tvær af þeim sex skerðingum sem gerðar voru á kjörum þessara hópa. Fundarboðendur hafa trú á að með góðri hvatningu muni stjórnvöld standa að fullu við þau loforð sem gefin voru fyrir kosningar. Því hvetja samtökin stjórnarflokkana til tryggja í fjárlagafrumvarpi 2014 fjármagn til að leiðrétta allar skerðingar sem eldri borgarar og öryrkjar hafa orðið fyrir eins og lofað hefur verið.
Kjaranefnd LEB hefur sýnt fram á að á síðustu fjórum árum hafa kjör eldri borgara rýrnað um 20% og nýbirt skýrsla sem Talnakönnun gerði fyrir ÖBÍ sýnir að á sama tíma og almenn launavísitala hækkaði um 23,5% og verðbólga var 20,5% hækkuðu heildartekjur öryrkja um 4,7%. Þar kemur einnig fram að bætur almannatrygginga til öryrkja árin 2008-2013 hafa ekki náð að halda í við verðlagshækkanir, almenna launaþróun né hækkun lægstu launa og er munurinn gríðarlegur. Bilið er stöðugt að breikka og er nú svo komið að lægstu laun hafa hækkað nær tvöfalt á við bætur öryrkja.
Þetta undirstrikar nauðsyn þess að skerðingarnar sem gerðar hafa verið á kjörum eldri borgara og öryrkja verði leiðréttar afturvirkt. Það er ánægjuefni að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa áréttað eftir kosningar að staðið verði við gefin loforð um leiðréttingu. Við væntum þess að í fjárlagafrumvarpinu sem lagt verður fram 1. október næstkomandi megi sjá efndir þeirra orða. ÖBÍ og LEB hvetja félagsmenn sína og allan almenning til að mæta á fundinn á Austurvelli og taka þátt í að hvetja þingheim til góðra verka.“