Bryndís Hlöðversdóttir hefur verið ráðin starfsmannastjóri Landspítala. Hún hefur störf um miðjan september næstkomandi. Þetta kemur fram á vef Landspítalans, en þar segir ennfremur að umsækjendur um starfið hafi verið 35.
Bryndís útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1992. Hún var rektor Háskólans á Bifröst frá byrjun árs 2011 til júní 2013. Áður hafði hún gegnt stöðu aðstoðarrektors og verið deildarforseti lagadeildar á Bifröst frá 2005.
Bryndís var þingmaður frá 1995 til 2005 og á árunum 1992 til 1995 var hún lögfræðingur Alþýðusambands Íslands. Bryndís hefur verið stjórnarformaður Landsvirkjunar frá 2009 og hefur auk þess gegnt fjölda annarra trúnaðarstarfa.