HÍ þolir ekki meiri niðurskurð

mbl.is/Styrmir Kári

Háskólaráð Háskóla Íslands fundaði í dag. Aðalviðfangsefni fundarins voru fjárframlög og fjárreiður Háskólans, en jafnframt staða húsbygginga og starfsáætlun skólans fyrir veturinn.  Að auki bar mál Jóns Baldvins Hannibalssonar á góma.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, segir ekkert komið í ljós hvernig fjárframlögum til Háskólans verður háttað árið 2014. „Við erum áhyggjufull vegna þess að fjárframlög til skólans hafa verið skert sex ár í röð á sama tíma og stúdentum hefur fjölgað um tæplega 20%.  Nú er stúdentum enn að fjölga og skólinn getur ekki tekið á sig meiri niðurskurð."

„Í dag er staðan sú að það eru 150 nemendur við skólann sem ekki er greitt með og þeim fer fjölgandi. Það er stórt vandamál. Kjör starfsmanna og stundakennara eru ennfremur áhyggjuefni, okkar starfsmenn hafa dregist afturúr í launum á sama tíma og álag hefur aukist og við vitum öll hvernig stendur með stundakennara,“ segir Kristín.

Sóttu 1,4 milljarða króna í alþjóðlega samkeppnissjóði

Kristín segir að hlutverk háskólans í verðmætasköpun samfélagsins sé skýrt.  „Geta okkar til að leggja af mörkum til verðmætasköpunar og nýsköpunar byggir að miklu leyti á vísindastarfinu. Vísindamenn Háskólans og kennarar hafa verið mjög öflug í að afla sértekna í erlendum samkeppnissjóðum. Á síðasta ári komu inn 1,4 milljarðar af rannsóknarfé sem starfsfólk aflaði sjálft í gegnum vísindasjóði,“ segir Kristín. Til samburðar má nefna að heildartekjur skólans í fyrra voru 14 milljarðar.

„Þetta er auðvitað bæði gjaldeyrisskapandi auk þess að skapa störf. En til þess að okkar fólk geti haldið áfram að sækja um þetta fé þá þarf það viðunandi aðstöðu og viðunandi kjör. Við erum byrjuð að missa fólk og fólk hættir við að koma þegar það heyrir hvaða laun eru í boði, þannig að þetta er gríðarlega alvarlegt vandamál.“

Kristín segir starfsfólk Háskólans hafa aflað fjölda einkaleyfa á síðustu misserum, aðallega á sviði heilbrigðisvísinda, en líka í efnafræði. Hún bendir á að sprotafyrirtæki sem hafa verið stofnuð við skólann hafi skapað um 150 störf.  "Þannig er skólinn að skapa verðmæti, gjaldeyristekjur og störf auk þess sem hann leggur af mörkum til allra atvinnugreina samfélagsins.“

Áhyggjur af stöðunni á Landspítalanum

Kristín segir að starfsfólk Háskólans fylgist grannt með stöðunni á Landspítalanum, en hann er stærsti samstarfsaðili skólans. „Við höfum miklar áhyggjur af ástandi mála á spítalanum, bæði vegna heilbrigðisþjónustunnar, álags á starfsfólk og vegna þess að sú kennsla og þjálfun sem þar fer fram er lykilatriði í menntum lækna og hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta.  Einnig er unnið dýrmætt vísindastarf í samstarfi spítalans og skólans, þannig að við höfum verulegar áhyggjur af ástandinu á spítalanum.“

Byggingaframkvæmdir við Háskólann á ís

Hún segir að framkvæmdir við Hús íslenskra fræða og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í uppnámi vegna óvissu um fjárframlög frá ríkinu og öflun sértekna. Stúdentakjallarinn og stækkun Háskólatorgs, hvorttveggja verkefni sem Félagsstofnun Stúdenta stóð að, séu hins vegar mjög vel heppnuð. „Stækkun Háskólatorgs er lokið, en hún, auk Stúdentakjallarans og bygging nýrra stúdentagarða er allt á vegum FS. Mann langar hálfpartinn að verða stúdent aftur þegar maður kemur þarna inn,“ segir Kristín.

„Varðandi Hús íslenskra fræða þá vitum við ekki hver niðurstaða ríkisstjórnarinnar verður um framhaldið. Við erum vongóð um framhaldið vegna þess að þessi bygging er að tveimur þriðju fyrir stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sú stofnun er sjálfstæð stofnun innan menntamálaráðuneytisins og því ríkisins að fjármagna þann hluta byggingarinnar. Þriðjungur hennar verður fyrir íslensku- og menningardeild Háskólans, og sá hluti er fjármagnaður af fé úr Happdrætti Háskóla Íslands. Það var gert samkomulag við okkur í fyrra um að framlagið frá Happdrættinu kæmi fyrst svo hægt væri að byrja. Við erum því vongóð um að þetta verði ekki stoppað.“

„Það ríkir einnig óvissa um húsnæði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur - þar vantar enn upp á fjármögnun. Fjármögnun þeirrar byggingar er með þeim hætti að hluti kemur úr happdrættisfé, hluti úr ríkissjóði og hluti er sértekjuöflun,“ segir Kristín. „Þeirri fjármögnun er ekki lokið.“

Verður að eyða óvissunni um LÍN

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert