MS vill ekki mjólkina frá Brúarreykjum

AFP

Kúabúið Brúarreykir í Borgarfirði hefur fengið leyfi til að senda frá sér afurðir, mjólk og kjöt, á nýjan leik. Leyfið er hins vegar skilyrt, þar eð taka þarf sýni úr öllum afurðum áður en þær blandast afurðum frá öðrum framleiðendum. MS mun ekki taka við mjólkinni frá Brúarreykjum.

Þetta þýðir að taka á sýni úr allri mjólk áður en hún blandast við mjólk frá öðrum bæjum. Þá er sláturleyfishöfum skylt að hafa samband við Matvælastofnun (MAST) þegar sláturgripir frá Brúarreykjum koma til þeirra og skal eftirlitsdýralæknir með sýnatöku ganga úr skugga um að afurðir séu hæfar til manneldis, samkvæmt frétt Bændablaðsins sem kom út í dag.


Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS), segir í samtali við Bændablaðið að þrátt fyrir þetta hafi MS ekki tekið við mjólk frá Brúarreykjum og það verði ekki gert fyrr en búið sé komið með leyfi til að senda frá sér mjólk án skilyrða.

„MS hefur tekið þá afstöðu að kaupa ekki mjólk af framleiðendum sem framleidd er með skilyrðum af þessu tagi. Það er augljóst að Matvælastofnun treystir ekki umræddum framleiðenda og við höfum því afþakkað að versla við viðkomandi aðila.“

„Við höfum hins vegar gert MAST og viðkomandi bónda grein fyrir því hvað til þurfi að koma til að Mjólkursamsalan endurskoði þessa afstöðu. Við þessi skilyrði verður hins vegar ekki búið af hálfu MS, ekki síst vegna þess hversu alvarlegt það er að uppi séu efasemdir um lyfjanotkun. Mjólk er sérlega viðkvæm dagvara og við erum með þessu að verja okkar neytendur, sem og stöðu annarra framleiðenda sem eiga þetta fyrirtæki. Þeir eiga allt sitt undir því að framleiðsluvörur MS njóti fyllsta trausts á markaði. Þeirri stöðu væri ógnað ef við myndum taka við mjólk með þessum skilyrðum.“

Brúarreykir aftur sviptir framleiðsluleyfi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka