Ræða alvarlega stöðu á Landspítala

Fundur læknanna er fjölmennur. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra mætti á …
Fundur læknanna er fjölmennur. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra mætti á fundinn. mbl.is/Rósa Braga

Stjórn Félags almennra lækna segir neyðarástand hafa skapast á lyflækningasviði Landspítalans, sem er stærsta sviði spítalans. Fjölmenni er á fundi lækna sem boðað var til í kvöld. Kristján Þór Júlísson heilbrigðisráðherra situr fundinn.

Læknafélag Íslands boðaði til fundarins og bauð stjórnendum Landspítala, heilbrigðisráðherra, landlækni og fleirum að sitja fundinn.

Rúmlega þriðjungur læknisstaða almennra lækna eru mannaðar á lyflækningasviði Landspítalans.

„Ljóst er að það neyðarástand sem nú hefur skapast á sér langan aðdraganda en til langs tíma hefur álagið á lækna sviðsins, bæði almenna lækna og sérfræðinga, verið of mikið og vaxandi og starfsaðstæður óboðlegar. Þetta kemur m.a. skýrt fram í starfsumhverfiskönnunum spítalans síðustu þrjú ár. Einnig hafa sérfræðilæknar og almennir læknar lengi varað stjórnendur við þessari þróun en talað fyrir daufum eyrum.

Þetta ástand hefur áhrif á læknisþjónustu við sjúklinga sem leita til spítalans og getur ógnað öryggi þeirra. Auk þess eykur þetta álagið á aðra lækna spítalans, sem þegar eru ofhlaðnir störfum. Loks bitnar þetta á kennslu læknanema og stefnir því stöðu spítalans sem háskólasjúkrahúss í hættu.

Stjórn félagsins lýsir yfir vonbrigðum með viðbrögð stjórnenda spítalans við ástandinu. Nauðsynlegt er að árétta að ekki er um deilu að ræða, né heldur hafa orðið nokkrar nýlegar breytingar á vinnutímatilskipunum sem áhrif hafa á ástandið, líkt og stjórnendur stofnunarinnar hafa ýjað að.

Skorar stjórn FAL á framkvæmdastjórn spítalans að beita sér þegar í stað til að finna  lausnir á málinu í náinni samvinnu við lækna sviðsins. Stjórnarmeðlimir eru nú sem endranær reiðubúnir að aðstoða við þá vinnu,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert