Sjö fallhlífastökkvarar frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík stukku úr TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, til að koma farþegum og áhöfn skemmtiferðaskipsins Arctic Victory til bjargar, en skipið hafði strandað og eldur kviknað í því við Grænlandsstrendur. Rétt er að taka fram að aðgerðin var liður í æfingunni Sarex Grænland 2013.
TF-SIF, varðskipið Týr og starfsmenn Gæslunnar við Keflavíkurflugvöll héldu í gær áfram þátttöku sinni í Sarex. Í gær snerist æfingin um að koma 200 farþegum og 48 manna áhöfn skemmtiferðaskipsins til bjargar eftir að neyðarkall var sent í kjölfar strands og eldsvoða.
Fram kemur í tilkynningu frá Gæslunni, að viðbragðsaðilar þurftu að staðsetja skipið, slökkva elda og flytja sjúklinga og skipbrotsmenn frá skipinu. Ákveðið hlutfall þeirra þurfti að senda á sjúkrahús, m.a. í Reykjavík.
Flugvélin flaug með sjö fallhlífastökkvara frá flugbjörgunarsveitinni á svæðið og stukku þeir út yfir eyjuna Ella. Fimm stukku úr 4.000 fetum og tveir úr 1.000 fetum. Einnig var ýmsum björgunarbúnaði, tjöldum og vistum fyrir aðhlynningarstöð, kastað út í 300 fetum. Gekk aðgerðin vel, að því er segir í tilkynningu frá Gæslunni.
Varðskipið Týr fór til aðstoðar og sendi sex reykkafara, dælur og ýmsan búnað með harðbotna björgunarbát sem einnig var notaður við björgun farþega og fleira. Aðgerðir gengu vel og voru allir sáttir við árangur dagsins. Æfingin heldur áfram í dag, fimmtudag.
Hér fyrir neðan má sjá myndskeið sem sýnir stökkið.
Sarex Greenland 2013 fallhlífastökk from Landhelgisgaeslan on Vimeo.