Í kaffihúsinu Simbahöllinni á Þingeyri er sterk sál eins og gjarnan er að finna í húsum sem hafa séð tímana tvenna. Reyndar býsna fjölþjóðleg sál, blanda þess besta af Vestfjörðum, Danmörku og Belgíu. Og útkoman er engu lík.
Þetta gamla hús var áður í mikilli niðurníðslu, sumir uppnefndu það Draugahöllina. En það hefur heldur betur hlotið uppreisn æru, þökk sé ungum og atorkusömum hjónum sem gerðu húsið upp og hafa rekið þar kaffihús á sumrin og um páskana undanfarin fjögur ár. Þetta eru þau Janne Kristensen frá Danmörku og Wouter Van Hoeymissen sem er frá Belgíu.
„Það var aldrei planið eða draumurinn að reka kaffihús á Þingeyri. Þetta bara gerðist einhvern veginn,“ segir Janne m.a. í samtali í Morgunblaðinu í dag. „Wouter, maðurinn minn, hafði ferðast mikið um Ísland, meðal annars komið á Þingeyri, en við kynntumst í háskólanámi í Reykjavík. Hann frétti af því að það ætti að rífa húsið og við ákváðum þá að kaupa það. Hugmyndin var að gera húsið upp, jafnvel selja það eða nýta það sem sumarhús. En þegar við vorum að þrífa húsið komu þessar flottu innréttingar í ljós og þá skiptum við um skoðun.“