Verið er að álagsprófa ljósastaura í Reykjavík til að ganga úr skugga um mögulegan líftíma þeirra. Stjórnandi prófunarinnar segir að líkt sé eftir því álagi sem myndast getur í stormi og standist staurarnir ekki þessa þraut er þeim skipt út ýmist strax eða settir á forgangslista í viðhaldsáætlun. Standist staur hins vegar prófið vottar fyrirtækið sem annast verkið líftíma stólpans næstu 6 árin.
Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að þýska fyrirtækið Roch services annist verkið og eru tveir starfsmenn fyrirtækisins hér í nokkrar vikur. Michael Hirth og Volker Lüthje sinna verki sínu ákaflega skipulega og fagmannlega. Mælitæki er stillt upp við staurinn og armur á beltatæki er festur ofarlega á hann og togað. „Við hristum ekki staurinn,“ segir Michael og leiðréttir algengan misskilning.
„Þá myndum við aðeins geta staðhæft að staurinn hafi staðist hristing. Nær væri að segja að við líkjum eftir stormi, þeim aðstæðum sem staurinn þarf að standast.“ Gögnum úr mælitækjum yfir tog- og þrýstingskrafta og hvernig staurinn gengur til baka er safnað í tölvu, auk ljósmynda, ástandslýsingar og annarra mælinga eins og þykkt á járni og ummáli staurs.
Niðurstöður um hvern staur liggja fyrir strax og því hægt að bregðast við strax ef staur er metinn hættulegur. Víða eru staurar ryðgaðir neðst við jörðina og svo var um þann staur sem þeir félagar voru að prófa þegar okkur bar að. Sá staur fékk falleinkunn og verður endurnýjaður innan tíðar.
Michael upplýsir að þó ryð sé við jörð þurfi það alls ekki að þýða að staurinn sé kominn á tíma. Svipað ástatt var um næsta staur, en hann stóðst þolprófið og hann þarf ekki að skipta um, eins og ætla hefði mátt og það getur sparað mikið fé að nýta staurana allan mögulegan líftíma þeirra.
Þetta er í fyrsta sinn sem slík álagsprófun er framkvæmd í Reykjavík og alls á að álagsprófa þúsund ljósastaura nú í ár af þeim tæplega 28 þúsund sem bera uppi götulýsingu í borginni. „Við tókum einkum mið af aldri þegar við völdum staura til prófunar, en einnig tökum við stikkprufur eftir framleiðendum, hæð staura og staðsetningu. Þá leikur okkur hugur á að vita hvaða áhrif það hefur þegar mörg skilti hafa verið hengd á staurana. Skiltin taka á sig vind og hafa því áhrif á endingu ljósastaursins,“ segir Jóhann S.D. Christiansen, verkefnisstjóri götulýsingar í Reykjavík.
„Þegar við fáum heildarniðurstöðurnar munum við leita eftir hvort sjáum eitthvað munstur úr prófunum og þá getum við skoðað það nánar“. Niðurstöður álagsprófunarinnar munu gagnast við mat á viðhaldsþörf næstu ára. Prófun stauranna kostar um 20 milljónir króna og telur Jóhann það muni skila sér í bættu öryggi, betri áætlunum og fullnýtingu á líftíma þeirra staura sem standast prófun.