Vinna að því að útrýma mænusótt

„Gaman væri að reyna að ná saman Íslendingum sem fengu …
„Gaman væri að reyna að ná saman Íslendingum sem fengu sjúkdóminn á sínum tíma,“ segir Sigrún Hjartardóttir sem veiktist sem barn.

Fjölmenni var við formlega setningu mænusóttarátaks UNICEF á Íslandi í samstarfi við Te & Kaffi. Átakið hófst í morgun og stendur yfir allan september. Markmiðið er að vekja athygli á þeim mikla árangri sem náðst hefur í baráttunni gegn mænusótt, einnig þekkt sem lömunarveiki, og bjóða landsmönnum að taka þátt í að útrýma veikinni á heimsvísu.

Mænusótt var eitt sinn að finna um allan heim og olli meðal annars miklum skaða hérlendis á sínum tíma. Þökk sé bólusetningum er veikin í dag einungis landlæg í þremur ríkjum og á 25 árum hefur mænusóttartilfellum í heiminum fækkað um meira en 99%. Mikilvægt er að láta ekki staðar numið nú heldur ná seinasta prósentinu og útrýma veikinni endanlega. Yfirskrift átaksins sem hófst í morgun er því „Klárum málið“.

Bólusetja síðasta barnið

 „Þetta snýst um að finna og bólusetja síðasta barnið. Meðan það hefur ekki verið gert er þeim gríðarlega árangri sem náðst hefur teflt í tvísýnu,“ sagði Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi við athöfnina. UNICEF hefur ásamt Rótarý-hreyfingunni og fleirum verið í forsvari fyrir afar umfangsmikið átak sem miðar að því að útrýma mænusótt á heimsvísu.

Engin lyf eru til við mænusótt og eina leiðin til að koma í veg fyrir að þessi skelfilegi sjúkdómur valdi lömun er bólusetning. Ein bólusetning kostar 25 krónur og er einföld og örugg leið til að koma í veg fyrir veikina.

Heilbrigðisyfirvöld bólusetja börn á Íslandi gegn mænusótt þrátt fyrir að veikin hafi ekki verið landlæg á Íslandi í meira en hálfa öld. Slíkt er nauðsynlegt meðan veikin finnst einhvers staðar í heiminum.

Auðvelt að hjálpa

Te & Kaffi hefur allt frá árinu 2008 stutt UNICEF myndarlega. Af hverjum seldum drykk í september gefur Te & Kaffi andvirði einnar bólusetningar gegn mænusótt. Almenningi gefst tækifæri á að gera það sama og gefa andvirði einnar bólusetningar (25 krónur) með hverjum keyptum drykk.

Jafnframt býðst landsmönnum að styðja átakið með því að senda sms-ið stopp í númerið 1900 og gefa þannig 10 bólusetningar (250 krónur).

Á viðburðinum í morgun tók til máls Sigrún Hjartardóttir sem fékk mænusótt þriggja ára gömul haustið 1955 og glímdi í kjölfarið við lömun á öllum útlimum. Lömunin gekk að miklu leiti til baka eftir langa og stranga endurhæfingu. Sigrún lýsti því að síðar á lífsleiðinni hefðu þó komið upp ný einkenni sem rakin væru til þess að hún fékk mænusótt sem barn. Þetta er á fræðimáli kallað post polio syndrome.

„Þá finnur fólk fyrir alls konar erfiðleikum, jafnvel minnkandi hreyfigetu og mikilli þreytu, um 20-40 árum eftir að það fær veikina. Þetta er þekkt en ekki mikið rætt,“ sagði Sigrún.

Hún benti jafnframt á að áhugavert væri að heyra í öðrum hér á landi með svipaða reynslu. „Ég hef oft talað um það við vinkonu mína sem sjálf fékk lömunarveiki að gaman væri reyna að ná saman Íslendingum sem fengu sjúkdóminn á sínum tíma.“

Mænusóttarátaks UNICEF á Íslandi er í samstarfi við Te & …
Mænusóttarátaks UNICEF á Íslandi er í samstarfi við Te & Kaffi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert