Ríkisendurskoðun hvetur stjórnvöld til að bregðast við fjórum ábendingum sínum frá árinu 2010 um fangelsismál. Óskilorðsbundnir dómar sem biðu þess að verða fullnustaðir voru tvöfalt fleiri í árslok 2012 en um mitt ár 2009.
Árið 2010 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem settar voru fram samtals níu ábendingar um úrbætur í fangelsismálum. Nú þremur árum síðar hefur verið brugðist við fimm þeirra á þann hátt að stofnunin telur ekki þörf á að ítreka þær. Hins vegar ítrekar stofnunin í nýrri skýrslu þrjár ábendingar sem beint var til innanríkisráðuneytis og eina sem beint var til velferðarráðuneytis.
Í skýrslunni kemur fram að fleiri dómþolar biðu eftir að hefja afplánun óskilorðsbundins fangelsisdóms í fyrra en árið 2009. Um mitt ár 2009 biðu þannig samtals 224 dómar þess að verða fullnustaðir, þ.e. afplánun var ekki hafin, en í árslok 2012 biðu samtals 466 dómar fullnustu eða meira en tvöfalt fleiri. Af þessum 466 dómum höfðu 102 beðið í meira en þrjú ár. Þegar biðtími er orðinn svo langur er hætta á að dómar fyrnist.
Fyrningartíminn er fimm ár fyrir óskilorðsbundnar refsingar allt að einu ári en lengri þegar um þyngri refsingar er að ræða. Fangar sem hófu afplánun árið 2012 höfðu að meðtaltali þurft að bíða í tæpt ár eftir því að hefja hana, þ.e frá því að þeim barst boð um það frá Fangelsismálastofnun. Fangar sem hófu afplánun 2009 höfðu að meðaltali beðið tæpum fjórum mánuðum skemur eða í rúmlega átta mánuði.
Þá kemur m.a. fram í skýrslunni að fjárveitingar til Fangelsismálastofnunar héldu hvorki í við fjölgun fanga né launaþróun á tímabilinu 2010‒2013.