Mikill meirihluti á geðlyfjum

Eldri borgarar liðka sig í sundleikfimi.
Eldri borgarar liðka sig í sundleikfimi. hag / Haraldur Guðjónsson

Lyfjanotkun er mikil á hjúkrunarheimilum á Íslandi. Þetta kemur fram í rannsókn sem læknarnir Helga Hansdóttir og Pétur G. Guðmannsson hafa unnið. Fjallað er um rannsóknina í Læknablaðinu.

Meðalfjöldi lyfja sem fólkið fékk á hjúkrunarheimilum var 9 lyf í upphafi árs 2002 en um 10 lyf við lok rannsóknar í árslok 2004. Þar af fengu meira en helmingur kvennanna fleiri en 10 lyf við lok rannsóknarinnar.

Konur nota fleiri lyf en karlar

Konur voru á fleiri lyfjum en karlar, að undanskildum hjarta- og æðasjúkdóma-lyfjum, krampalyfjum og Parkinsonslyfjum. Heildarlyfjanotkun virðist hafa aukist ef borið er saman við RAI-upplýsingar birtar 10 árum fyrr, úr 7 í 10 að meðaltali.

Notkun geðrofslyfja hefur notið mestrar athygli á hjúkrunarheimilum vegna hættu sem fylgir notkun þeirra.Bæði bandarískar og evrópskar rannsóknir sýna að geðrofslyf eru notuð af 25-26% íbúa á hjúkrunarheimilum.

Um helmingur á þunglyndislyfjum

Á Íslandi voru 35% á geðrofslyfjum í einni rannsókn frá árinu 1996. Um 20% tóku geðrofslyf reglubundið í þessari rannsókn, auk 15% sem tóku lyfin tímabundið. Mögulega hefur notkun þeirra minnkað eitthvað eða færst frá reglubundinni notkun í tímabundna notkun, segir í grein þeirra Helgu og Péturs í Læknablaðinu.

Þrátt fyrir viðvaranir um aukna dánartíðni meðal heilabilaðra sem fá þessi lyf, virðist erfitt að hætta notkun þeirra alfarið.

Þunglyndislyfjanotkun var í þessari rannsókn áþekk og í Bandaríkjunum (50%), sem er heldur meira en í Evrópu á svipuðum tíma (35%) en að auki fengu um 15-16% slík lyf tímabundið á þessum þremur árum.

65% á kvíðastillandi lyfjum

Reglubundin notkun kvíðastillandi lyfja var talsvert mikil í þessari rannsókn, eða 65%. Áður hefur því verið lýst að 70% íbúa hjúkrunarheimila á Íslandi noti kvíðastillandi lyf og gæti því verið að um lítilsháttar fækkun sé að ræða. Notkunin var talsvert meiri en í evrópsku rannsókninni, en þar voru 36% á bensodíasepínlyfjum.

Í þessari rannsókn notuðu 84% kvenna og 78% karla einhver geðlyf að staðaldri. Í sænsku rannsókninni var talan 80-85% eftir því hvort um var að ræða almennt hjúkrunarheimili eða sérhæft úrræði fyrir heilabilaða. 

Flest lyf voru þegar í notkun í byrjun rannsóknar eða við komu á hjúkrunarheimili og héldust óbreytt yfir rannsóknartímann, sem vekur spurningu um hvort lyfjalisti sé nægilega endurskoðaður í samræmi við aðstæður, vilja og horfur einstaklinganna, segir í niðurstöðu þeirra Helgu og Péturs.

Engar vísbendingar voru um vanmeðhöndlun verkja og þunglyndis. Þrátt fyrir að D-vítamín sé mikið notað ætti notkun þess að vera meiri, ekki síður meðal karla en kvenna.

 Skráð var lyfjanotkun á hjúkrunarheimilum sem fengu lyf með tölvustýrðri skömmtun frá byrjun 2002 til loka 2004. Upplýsingar fengust frá 10 hjúkrunarheimilum um alls 1409 einstaklinga, eða um 60% allra vistmanna hjúkrunarheimila á landinu. Konur voru 65% af úrtakinu, meðalaldur var 83 ár og 43% létust á rannsóknartímanum. Fjöldi lyfjaávísana á einstakling var skráður, auk þess sem skoðaður var fjöldi ávísana lyfja sem notuð eru við algengum langvinnum sjúkdómum og einkennum.

Greinin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert