Verður berfættur í mánuð

Ásgeir Kári berfættur ofan á fatasöfnunargámi
Ásgeir Kári berfættur ofan á fatasöfnunargámi

Ásgeir Kári Ómarsson ætlar að gera tilraun til að vera skó- og sokkalaus í mánuð. Þetta gerir hann til að vekja athygli á þeim sem þarfnast fatagjafa frá ýmsum fataúthlutunarkerfum á borð við Rauða Krossinn. Tilraunin nefnist „Í skóm þeirra skólausu.“

„Tilraunin er búin að endast núna í tæpan sólarhring en þetta er fimmti dagurinn sem ég er berfættur. Ég gerði þetta í einhverju flippi fyrir þessum fimm dögum en síðan fór ég að pæla í þessu aðeins meira, segir Ásgeir Kári. „Ég hef nýtt mér fataúthlutanir Rauða Krossins og slíkt.“

Hann segist ekki hafa efni á að kaupa sér föt eða skó, og hefur gengið í sömu rifnu skónum í eitt og hálft ár.

„Ég setti mig í samband við Mæðrastyrksnefnd til að athuga hvort ég gæti safnað áheitum fyrir nefndina eða eitthvað slíkt. Þau tóku því mjög vel,“ segir Ásgeir Kári. „Félagslega hliðin á þessu er líka mjög áhugaverð. Viðbrögðin sem ég fæ eru oft mjög skrýtin. Fólk hvíslar í kringum mig og rekur upp stór augu. Ég fór í banka í gær og þar var allt starfsfólkið að spjalla við mig um hvað ég væri klikkaður og ætti að fara í skó.“

Hann segir vini og ættingja spyrja talsvert hvort hann sé ekki alveg í lagi. Þó hefur hann ekki slasað sig á göngu sinni, en sigg sé farið að myndast á iljunum.

Hvetur fólk til að gefa föt

Ásgeir Kári, sem er 21 árs gamall, er óvirkur alkóhólisti og í námsendurhæfingu, auk þess sem að lifa af bótum frá Félagsþjónustunni. „Ég hef hreinlega ekki efni á að kaupa mér föt. Ég hef lengi ætlað að safna mér fyrir skóm en hef bara ekki efni á því. Það er fólk hérna á Íslandi sem hefur ekki efni á að kaupa sér föt.“

Ásgeir Kári ætlar að halda tilrauninni áfram, jafnvel þótt snjói. „Ég vona að það snjói ekki alveg strax, ég þyrfti að safna upp aðeins meira siggi. En það væri alveg áhugavert.

Ásgeir Kári ætlar að halda videoblogg á facebooksíðu sinni þar sem hægt verður að fylgjast með hvernig honum gengur. Þar er líka að finna reikningsnúmer mæðrastyrksnefndar, en Ásgeir Kári hvetur fólk til að styrkja Mæðrastyrksnefnd og gefa föt sem það notar ekki í fataúthlutun.

„Þetta er samt rosalega þjóðfélagslega bannað, að vera ekki í norminu og vekur undrun margra,“ segir Ásgeir Kári.

Facebooksíða Ásgeirs

Ásgeir Kári berfættur við Gróttuvita
Ásgeir Kári berfættur við Gróttuvita
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert