„Núverandi staðsetning Reykjavíkurflugvallar er alger forsenda fyrir því að hægt sé að halda úti innanlandsflugi á Íslandi. Ef á að færa flugið langt frá þjónustunni, t.d. til Keflavíkur, þá er enginn rekstrarlegur grundvöllur fyrir frekara flugi vegna þess að farþegum myndi fækka það mikið.“
Þetta segir Hörður Guðmundsson, eigandi og framkvæmdastjóri flugfélagsins Ernis, spurður í Morgunblaðinu í dag um afstöðu til framtíðar Reykjavíkurflugvallar.
Hörður tekur í sama streng og Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands, í Morgunblaðinu í gær, og gagnrýnir áætlanir í aðalskipulagi Reykjavíkur um að leggja niður norður/suður-flugbrautina 2016. „Það yrði rothögg fyrir innanlandsflugið,“ segir Hörður.
Í samtalinu í blaðinu gagnrýnir Hörður einnig gjaldtöku af fluginu á Reykjavíkurflugvelli sem eru einkum lendingar- og farþegagjöld, sem ISAVIA hafi hækkað.