„Þið þurfið að greiða aukagjald“

Um 200 Íslendingar voru viðstaddir ævintýralegan 4:4 leik Sviss og Íslands í undankeppni HM í fótbolta sem fram fór í Bern. Þeirra á meðal var Sigríður Inga Sigurðardóttir sem segir að upplifunin af leiknum hafi verið ógleymanleg fyrir hana og fjölskyldu hennar en þetta var fyrsti landsleikurinn sem hún hefur farið á.

„Þvílíkt mannhaf, að horfa á allt þetta fólk,“ segir Sigríður Inga agndofa. Hún segist meira en til í endurtaka leikinn og fara aftur á landsleik. „Við fjölskyldan ákváðum að fara á leikinn með stuttum fyrirvara og fengum sæti sem voru því miður ekki á sama stað og hinna Íslendinganna. Því sátum við með Svisslendingunum. Við vorum farin að huga að því að fara áður en leik lauk því staðan var orðin svo slæm fyrir Íslendingana,“ segir Sigríður Inga.

Stutt á milli hláturs og gráturs

Með í för voru þau Hildur Björg, Haukur Freyr, Leifur Már Jónsbörn og Einar Hinz. Þau hvöttu sitt lið óspart og vöktu mikla athygli hjá Svisslendingunum sem sátu nálægt þeim. „Ég á níu ára strák sem er mikill fótboltaáhugamaður. Ég og vinkona mín sem einnig á ungan strák vorum farnar að tala um það að vonandi myndi Ísland ná að skora annað mark þar sem það lá við gráti hjá þeim. Bara svona í sárabætur,“ segir Sigríður en drengirnir fengu gott betur en það og sáu Ísland skora þrjú mörk á lokakaflanum eins og frægt er orðið.

Sigríður býr ásamt eiginmanni sínum Jóni Áka Leifssyni í bænum Baar. Saman eiga þau þrjú börn. „Við búum í hálfgerðu Íslendingagettói og það er ekki talað um annað en þennan leik hérna því það eru allir svo ánægðir. Börnin eru búin að horfa á mörkin á netinu og þar á meðal mörkin hjá þessum Jóhanni, sem ég vissi ekkert hver var fyrir leikinn,“ segir Sigríður. Hún er þó á því að miklu hafi breytt að fá Eið Smára Guðjohnsen inn á völlinn í hálfleik.

Fjölskyldustemming

Hún segir að við komuna á völlinn hafi Svisslendingarnir eilítið verið að hnýta í þau þar sem þeir voru afar sigurvissir fyrir leik. „Já, þeir voru aðeins að segja við okkur að þeir væru vissir um sigur. En svo urðu þeir náttúrlega rosalega fúlir þegar Ísland jafnaði. Það heyrðist svolítið í íslensku áhorfendunum þá en við urðum svo sem ekkert sérstaklega vör við þá meðan á leiknum stóð,“ segir Sigríður.

Hún segir að þrátt fyrir að heimamenn hafi eðlilega verið óánægðir með framgöngu sinna manna þá hafi fjölskyldustemming einkennt áhorfendur. „Þar voru engar bullur. Bara fólk með börnunum sínum að styðja sitt lið, allir klæddir í rautt,“ segir Sigríður.

Í lestarferðinni á leiðinni frá Bern til Baar gerði einn lestarvörðurinn athugasemd sem fjölskyldunni þótti skemmtileg. „Þegar hann komst að því að við værum frá Íslandi þá sagði hann: Þið þurfið að greiða aukagjald,“ segir Sigríður og hlær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert