Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, segir að til standi að skoða það hvort og þá hvernig hægt verði að koma til móts við Eyþing, samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, vegna slæmrar stöðu sem til komin er vegna áætlanaferða Strætó á Norður- og Norðausturlandi.
Þingmenn kjördæmisins munu funda með fulltrúum Eyþings á þriðjudag þar sem farið verður yfir fjárhagsstöðu Strætó. „Á fundinum munum við byrja með að fá upplýsingar um það hvernig staðan er. Við munum að sjálfsögðu kanna hvort og þá með hvaða hætti ríkissjóður gæti komið að málinu,“ segir Höskuldur.
Í Morgunblaðinu í dag segir Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður Eyþings, að greiða þurfi verktaka sem sér um aksturinn, fjórar milljónir króna á þriðjudaginn. „Þeir peningar eru ekki til. Það blasir því við okkur gjaldþrot,“ segir Geir.
Höskuldur segir að ljóst sé að ekki verði hægt að koma til móts við sveitarfélagið fyrir þann tíma. „Ég get þó tekið undir þau sjónarmið að það var rangt gefið í upphafi. Það var ekki rétt gefið þegar deilt var peningum til almenningssamgangna um allt landið. Með það að leiðarljósi munum við skoða málið, bæði í samgöngunefnd og fjárlaganefnd,“ segir Höskuldur.
Hann segir að nú standi yfir vinna að gerð fjárlaga. „Hvort sem það verður nauðsynlegt að hafa þetta á fjárlögum ársins 2014 eða í fjáraukalögum skal ósagt látið. Sjálfur hef ég verið fremur mótfallinn því að beita fjáraukalögum nema í brýnustu nauðsyn þó þetta mál gæti fallið undir það,“ segir Höskuldur.