Jákvætt andrúmsloft á makrílfundi

Frá fundi í makríldeilunni í Reykjavík um helgina
Frá fundi í makríldeilunni í Reykjavík um helgina mbl.is/Golli

Samningafundi um skiptingu makrílsstofnsins lauk nú skömmu fyrir hádegi. Sigurgeir Þorgeirsson, formaður samninganefndar Íslands, segir að fundurinn hafi verið uppbyggilegur og andrúmsloftið á honum jákvætt en ekki hafi náðst nein formleg niðurstaða í makríldeiluna.

Á fundinum sátu fulltrúar Íslands, Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins. Norðmenn og ESB krefjast þess að Íslendingar og Færeyingar dragi úr veiðum og hefur framkvæmdastjórn ESB hótað að leggja löndunarbann á fiskafurðir frá Íslandi vegna veiða þeirra á makríl.

Í samtali við mbl.is segir Sigurgeir að um óformlegan fund hafi verið að ræða. Fundurinn var uppbyggilegur, andrúmsloftið jákvætt og gefur tilefni til frekari viðræðna í framhaldinu,“ segir Sigurgeir.

Vonir eru til þess að ekki verði gripið til refsiaðgerða gagnvart Íslendingum og Færeyingum á meðan viðræður eru á þessu stigi. Næsti reglubundni fundur nefndanna verður haldinn í október í London en ekki liggur fyrir hvort fleiri undirbúningsfundnir verða haldir fyrir þann tíma.

Forsaga deilunnar er sú að makríll fór að ganga inn í lögsögu Íslands í miklu magni upp úr miðjum síðasta áratug og veiðar Íslendinga jukust mikið 2007 til 2010. Allt frá því að farið var að stjórna nýtingu makríls á vettvangi Norður-Atlantshafsfiskveiðiráðsins 1999 sóttist Ísland eftir að verða viðurkennt strandríki en var ekki samþykkt fyrr en 2010. Deilan um skiptingu stofnsins hefur staðið síðan 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka